Óskarsverðlaunin verða afhent í kvöld. Viðskiptablaðið fer yfir tilnefningar í helstu flokkum, og lesa má um nánar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Besti leikarinn:

Demián Bichir: A Better Life
George Clooney: The Descendants
Jean Dujardin: The Artist
Gary Oldman: Tinker Tailor Soldier Spy
Brad Pitt: Moneyball

Demián Bichir, Gary Oldman og Jean Dujardin fá sínar fyrstu tilnefningar til Óskarsverðlauna en sá síðastnefndi vann Golden Globe og BAFTA verðlaunin fyrir hlutverk sitt í The Artist.

George Clooney vann Golden Globe fyrir hlutverk sitt í The Descendants. Hann fær nú sína fjórðu tilnefningu fyrir leik en hann vann árið 2005 sem besti leikarinn í aukahlutverki í myndinni Syriana. George Clooney hefur fengið sjö tilnefningar til Óskarsverðlauna, en hann var einnig tilnefndur árið 2005 sem besti leikstjórinn og fyrir besta handritið fyrir myndina Good Night, and Good Luck. Núna í ár er hann einnig tilnefndur fyrir besta handritið fyrir myndina The Ides of March.

Brad Pitt fær sína þriðju tilnefningu til Óskarsverðlaunanna fyrir leik, en hann hefur áður verið tilnefndur sem besti leikari í aukahlutverki í myndinni 12 Monkeys og besti leikarinn í aðalhlutverki í myndinni The Curious Case of Benjamin Button. Brad Pitt er einn af framleiðendum myndarinnar Moneyball þannig að hann fær einnig tilnefningu fyrir bestu myndina í ár.

Besta leikkonan

Glenn Close: Albert Nobbs
Viola Davis: The Help
Rooney Mara: The Girl with the Dragon Tatto
Meryl Streep: The Iron Lady
Michelle Williams: My Week With Marilyn

Rooney Mara er eina leikkonan í þessum flokki sem fær tilnefningu í fyrsta sinn. Meryl Streep er sú eina í þessum hópi sem hefur unnið til Óskarsverðlauna og hefur henni tvisvar sinnum hlotnast sá heiður. Reyndar eru liðin 29 ár síðan hún vann síðast Óskarsverðlaun, en það var fyrir aðalhlutverk í myndinni Sophie’s Choice. Hún heldur áfram að bæta við metið fyrir fjölda tilnefninga og er þetta sautjánda tilnefning hennar. Meryl Streep vann Golden Globe og BAFTA verðlaunin fyrir túlkun sína á járnfrúnni.

Viola Davis fær í annað sinn tilnefningu til Óskarsverðlauna en hún var áður tilnefnd fyrir besta leik í aukahlutverki í myndinni Doubt árið 2008.

Glenn Close er tilnefnd til Óskarsverðlauna. Langt er um liðið frá því hún var síðast tilnefnd en það var árið 1988 fyrir myndina Dangerous Liaisons.

Michelle Williams er tilnefnd í þriðja sinn en hún var einnig tilnefnd á síðasta ári í þessum sama flokki fyrir hlutverk sitt í myndinni Blue Valentine. Michelle Williams vann Golden Globe verðlaunin í ár fyrir hlutverk sitt í My Week With Marilyn.