Viðskiptablaðið fer yfir tilnefningar til Óskarsverðlaunanna, sem verða afhent í kvöld. Tilnefndir sem besti leikstjórinn eru:

Woody Allen: Midnight in Paris
Michel Hazanavicius: The Artist
Terrence Malick: The Tree of Life
Alexander Payne: The Descendants
Martin Scorsese: Hugo

Michel Hazanavicius er sá eini í þessum flokki sem fær sína fyrstu tilnefningu til Óskarsverðlauna. Hann fékk reyndar þrjár tilnefningar í ár, en hann er einnig tilnefndur fyrir besta handrit og bestu klippingu á myndinni The Artist. Hann vann BAFTA verðlaunin sem besti leikstjórinn. Hinir fjórir leikstjórarnir hafa allir áður verið tilnefndir til Óskarsverðlauna og það ekki eingöngu fyrir leikstjórn.

Terrence Malick er reyndar sá eini af þeim sem aldrei hefur unnið Óskarsverðlaun. Hann fær núna tilnefningu í annað sinn fyrir leikstjórn en hann var tilnefndur fyrst árið 1998 fyrir myndina The Thin Red Line, en fyrir þá mynd fékk hann einnig tilnefningu fyrir besta handritið.

Alexander Payne fær sína aðra tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir leikstjórn en hann var áður tilnefndur árið 2004 fyrir myndina Sideways, en fyrir þá mynd vann hann Óskarsverðlaun fyrir besta handritið. Í ár er hann aftur tilnefndur fyrir besta handritið og einnig fyrir bestu mynd.

Martin Scorsese er nú tilnefndur í sjöunda sinn sem besti leikstjórinn en síðast þegar hann var tilnefndur vann hann fyrir myndina The Departed árið 2006. Í ár er hann líka tilnefndur fyrir bestu myndina. Hann vann Golden Globe verðlaunin fyrir bestu leikstjórn. Þetta er í annað sinn sem Martin Scorsese og Alexander Payne eru báðir tilnefndir sem besti leikstjórinn sama árið en það gerðist síðast árið 2004, en þá töpuðu þeir fyrir Clint Eastwood fyrir myndina Million Dollar Baby. Martin Scorsese var það ár tilnefndur fyrir The Aviator.

Woody Allen er eins og Martin Scorsese að fá sína sjöundu tilnefningu fyrir leikstjórn en hann vann í þessum flokki árið 1977 fyrir myndina Annie Hall. Reyndar hefur Woody Allen unnið þrenn Óskarsverðlaun en hinar tvær stytturnar vann hann fyrir besta handritið fyrir myndirnar Annie Hall og Hannah and Her Sisters árið 1986. Í ár er hann einnig tilnefndur fyrir besta handritið en það er í fimmtánda sinn sem hann hlýtur tilnefningu fyrir besta handrit. Einu sinni hefur hann verið tilnefndur fyrir besta leik (Annie Hall) þannig að í heildina hefur Woody Allen fengið 23 tilnefningar.

Nánar er fjallað um Óskarinn í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.