Í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland er bent á tilmæli G20 hópsins og OECD til þess að bæði skráð og óskráð fyrirtæki þurfi að gefa víðtækar fjárhagsupplýsingar, og er þar vísað til áhrifa Wow á hagkerfið. Skýrslan, sem gefin er út árlega, fer yfir helstu þætti og áskoranir íslensks efnahagslífs, nú þegar fer að hægja á eftir mikinn vöxtu síðustu ára.

Fyrir utan áhrif verri stöðu í ferðamennsku á landinu vegna kyrrsetningar Max véla Icelandair og falls Wow air, eru horfur í heimshagkerfinu sögð mesta ógnin. Það er minni heimshagvöxtur, óvissa með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, og aukinn þrýstingur á fjármálamarkaði vegna ákvörðunar FATF samtakanna að setja Ísland á gráan lista.

Jafnframt segir skýrslan viðbrögð stjórnvalda vera rétt, bæði með umbótum á reglum til að hindra peningaþvætti og með innspýtingar aðgerða í hagkerfið með uppbyggingu innviða. Það sé hægt vegna þess að fjármálastefnan hafi lækkað skuldir, og geti í raun lækkað þær niður í ekki neitt ef á horfir sem hingað til.

Í annarri meðfylgjandi skýrslu er farið ítarlega í fjármálaáætlun stjórnvalda og rammann sem lög um hana setur fjármálastefnunni, og það aukna svigrúm sem nú fáist til að grípa til aðgerða vegna aðhalds síðustu ára.

Kerfisumbætur í umhverfi fyrirtækja og í menntun

Undir liðnum kerfisumbætur er farið í framleiðni landsins, sem þó sé há í samanburði við samanburðarlönd í Evrópu, fari þó minnkandi, er bent á nauðsyn þess að tryggja langtíma hagvöxt með umbótum í menntakerfinu, fjármálamörkuðum og til að tryggja áframhaldandi afrakstur af ferðaþjónustunni og sjávarútveginum.

Eins og áður segir er sérstaklega vísað til þess að nauðsynlegt sé að bæði skráð og óskráð fyrirtæki, eins og Wow air, gefi réttmætar fjárhagslegar upplýsingar í tíma.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um á sínum tíma birti Wow air ekki uppgjör sitt í um 15 mánaða skeið í aðdraganda skuldabréfaútboðs síns, en stjórnvöld hafa íhugað að setja ítarlegri kröfur á óskráð fyrirtæki um birtingu fjárhagsupplýsinga.

Þannig bendir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á tillögur G20 og OECD um að birta þurfi endurskoðaða ársreikninga, helstu eigendur, þóknanir helstu stjórnenda, viðskipti innherja, helstu áhættuþætti og aðrar nauðsynlegar upplýsingar til að tryggja áhrif fyrirtækjanna á hagkerfið í heild.

Segir sjóðurinn að tilkoma reglna um slíkt inn í íslensk lög gæti dregið úr áhættunni af því að ógegnsæ fyrirtæki með mikla vigt í hagkerfið, og samræma reglur við gott verklag í öðrum þróuðum Evrópuríkjum.