Alsiða er í Eystrasaltslöndunum að skreppa í skemmtisiglingu með ferjum Tallink Grupp, sem er stærsti farþega- og flutningsfyrirtæki á Eystrarsaltssvæðinu, en þær sigla m.a. á milli Eistlands, Finnlands, Svíþjóðar, Lettlands og Þýskalands undir nöfnum Silja Line og Tallink. Er þá gjarnan drukkið hressilega og skemmt sér á veitingastöðum ferjanna meðan á siglingu stendur.

Fram kemur á BBN-fréttavefnum að nú sé hins vegar vaxandi ásókn Svía til að nýta skipin með öðrum hætti og ekki eins líflegum. Sífellt fleiri Svíar hafa farið þess á leit við útgerðina að mega nýta skipin til útfarar ástvina sinna. Fer það þannig fram að eftir að hafa fengið tilskilin leyfi og samþykki viðkomandi skipstjóra, hægir skipið á sér um miðja nótt og syrgjendur halda stutta athöfn á þilfarinu áður en ösku hins látna er fleygt í hafið.

Hugsanlegur vaxtabroddur?

Algengt er að athafnirnar eigi sér stað nærri Álandseyjum segir í fréttinni, án þess að fram komi hvers vegna sú staðsetning sé vinsælli en önnur. Hvort að þarna sé kominn nýr vaxtarbroddur í skipaútgerð á svæðinu eða annars staðar er einnig látið ógetið.