Það ríkti sannkölluð öskudagsgleði í Ölgerðinni í dag en heimsókn þangað er orðin fastur liður hjá mörgum börnum á þessum degi og er áætlað að rúmlega 4.000 börn hafi heimsótt fyrirtækið í dag.  Það voru ekki bara börn sem klæddu sig upp heldur gerði starfsfólkið það líka.

„Sá siður að ganga í fyrirtæki og syngja fyrir góðgæti er þekktur hér á landi en fyrir aðeins örfáum árum komu þau víða að lokuðum dyrum," segir í tilkynningu frá Ölgerðinni. „Nú er öldin önnur og flest fyrirtæki hafa nú skálar með einhverju gómsætu fyrir börnin í verðlaun fyrir söng eða uppákomur.

Ölgerðin hefur um nokkurra ára skeið opnar dyr sínar upp á gátt á þessum degi og lagt sig fram um að bjóða börn velkomin. Þannig hefur fyrirtækið verið með fjölbreytta dagskrá í gangi eins og fjöldasöng við gítarundirspil, myndatöku og fleira í þeim dúr.  Í ár var ekki nein breyting á þessu og óhætt er að segja að viðtökurnar hafi verið í samræmi við það. Mörg hundruð börn lögðu leið sína í fyrirtækið í dag og mátti heyra söng og gleðilæti handan við hvert horn.  Starfsfólk Ölgerðarinnar tók daginn líka hátíðlega og klæddi sig upp til að börnin yrðu ekki ein í Öskudagsstemmningunni."