Straumur óskaði eftir 20 milljóna evra fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum um helgina til að mæta mögulegu áhlaupi innstæðueigenda. Þegar Seðlabankinn varð ekki við því vildi Straumur fara í greiðslustöðvun.

Fjármálaeftirlitið tók það ekki í mál og kom skilanefnd FME inn í Straum um klukkan fjögur í nótt. William Fall var mjög ósáttur við  niðurstöðuna og sagði þegar af sér sem forstjóri.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru Straumsmenn bjartsýnir í lok síðustu viku. Þeir höfðu þá samið við alla sína erlendu lánardrottna um framlengingu lána með þeim formerkjum að beðið yrði eftir því að eignir yrðu seldar.

Eina óleysta málið væri hvernig mæta ætti innstæðeigendum sem eru aðallega fagfjárfestar. Þeir höfðu gefið til kynna að þeir myndu ekki endurnýja innstæður sínar í Straumi. Hlutabréfaverð lækkað í síðustu viku og þeir þyrftu að mæta veðköllum. Þar með var útlit fyrir að áhlaup yrði gert á bankann í þessari viku.

Þess vegna óskaði Straumur eftir fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum, eins og fyrr sagði, en því var hafnað.

Rætt um að FME tæki einungis yfir innstæðurnar og færði yfir í sérstakt félag

Viðræður milli stjórnenda Straums og FME fóru fram á laugardag og sunnudag. Um tíma var rætt, að frumkvæði FME, eftir því sem næst verður komist að FME tæki yfir innlánin og eignir á móti sem væru jafn verðmætar.

Þetta yrði fært yfir í sérstakt félag. Síðan yrði unnið að því í sameiningu að selja eignir og greiða niður innlánin. Eftir stæði hinn hlutinn af Straumi, sem fjárfestingarbanki, sem áfram yrði sjálfstæður.

Straumur tók þessari hugmynd ágætlega en ekki náðist þó sátt um hana í viðræðunum um helgina. Þá vildi Straumur að farið yrði í greiðslustöðvun, sem fyrr sagði,  til að tryggja jafnræði allra sem ættu kröfur á hendur Straumi.

Um miðja nótt kom hins vegar skilanefnd inn í Straum og tók yfir rekstur hans. Um hundrað manns vinna hjá Straumi á Íslandi og ríkir óvissa um hvað verður um þá. Um sex hundruð manns vinna hjá Straumi í heild.