*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 30. október 2019 14:01

Óskýr skilaboð Seðlabankans

„Við blasir hagkerfi sem er að stöðvast nokkuð hratt á sama tíma og lánskjör til fyrirtækja haldast há á meðan grunnvextir fara lækkandi.“

Ritstjórn
Agnar Tómas Möller, forstöðumaður skuldabréfa hjá Júpíter.

Agnar Tómas Möller, forstöðumaður skuldabréfa hjá Júpíter, segir að horfur í hagkerfinu hafi versnað frá því að Seðlabankinn lækkaði síðast vexti í nýliðnum september. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein eftir Agnar, sem birtist í Markaði Fréttablaðsins í dag, undir yfirskriftinni Í ströngu aðhaldi. 

„Síðan þá hafa línur skýrst enn frekar. Sá litli hagvöxtur sem hefur mælst er sannkallaður „kreppuhagvöxtur“ og skýrist að mestu með yfir 10% samdrætti í innflutningi, hinum mesta síðan 2009. Eyðsla Íslendinga erlendis hefur dregist saman um fimmtung og nánast enginn vöxtur mælist í eyðslu Íslendinga hér innanlands. Forstjóri Vinnumálastofnunar sagði í kjölfar mikilla hópuppsagna í lok september að „langt væri síðan slíkar tölur hefðu sést“ og að „atvinnuleysi myndi fara vaxandi“,“ skrifar Agnar og bætir við að ný fjárfesting fyrirtækja fari sömuleiðis fallandi og hratt dragi úr vexti nýrra útlána til fyrirtækja. 

„Við blasir hagkerfi sem er að stöðvast nokkuð hratt á sama tíma og lánskjör til fyrirtækja haldast há á meðan grunnvextir fara lækkandi,“ skrifar Agnar og bendir í framhaldinu á að þegar fyrirtæki og heimili haldi að sér höndum samhliða auknu atvinnuleysi geti spírall neikvæðra væntinga og vaxandi svartsýni myndast, langt umfram það sem undirstöður hagkerfisins gefi tilefni til.  

„Spjótin beinast því að peningastefnunni. Ólíkt fyrri tíð, eru langtímaverðbólguvæntingar ríkisskuldabréfa við eða undir verðbólgumarkmiði, sem og verðbólguvæntingar fyrirtækja og markaðsaðila,“ skrifar Agnar og bendir á að markaðurinn telji að raunvaxtastig næstu misseri verði hátt, meðal annars vegna væntingastjórnunar Seðlabankans, sem hafi gefið sterklega í skyn að vextir myndu ekki endilega lækka mikið á næstunni.

„Það veit ekki á gott, mikilvægt er að Seðlabankinn sendi skýr skilaboð um að raunvaxtaaðhald bankans fari lækkandi en ekki hækkandi eins og aðstæður í hagkerfinu þróast nú um stundir,“ skrifar Agnar í lokum í greininni.