Tölvunotkun tekur breytingum eins og annað í samfélaginu. Nú horfa tölvuframleiðendur í auknum mæli á framleiðslu á smátölvum, eins og Lenovo sem hefur kynnt til sögunnar Ideapad S10e.

Hún er smá að sniðum og hentar frekar til sérhæfðari verka, svo sem léttrar ritvinnslu, ráp á netinu eða til þess að horfa á kvikmyndir.

Þá er Ideapad með innbyggðri vefmyndavél.

„Hún hentar því vel fyrir fólk á ferðinni, enda fyrirferðalítil. Þá hentar hún ágætlega sem aukavél á heimilinu eða sem vél fyrir þá yngri sem gera minni kröfur um þyngri vinnslu. Það má því segja að mörkin milli smátölva og farsíma verði enn óskýrari eftir því sem tækninni fleygir fram," segir Gísli Þorsteinsson upplýsingafulltrúi Nýherja sem er með umboð fyrir tölvuna.

Ideapad vegur 1,2 kg en er hraðvirk og með 160 GB disk. Hún getur því tekið við mikið af upplýsingum og gögnum. Vélin fæst í ýmsum litum og er það nýlunda hjá Lenovo að bjóða vélar í fleiri en hinum hefðbundna dökka lit.