*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 10. desember 2019 12:13

Óskýrri kröfu Eldum rétt vísað frá

Eldum rétt og Álfasaga deildu um notkun síðarnefnda fyrirtækisins á auðkenninu Borðum rétt.

Jóhann Óli Eiðsson
Kristófer Júlíus Leifsson framkvæmdastjóri og Valur Hermannsson hjá Eldum rétt.
Haraldur Guðjónsson

Héraðsdómur Reykjaness hafnaði fyrir helgi staðfestingu lögbanns sem Eldum rétt ehf. hafði farið fram á gegn Álfasögu ehf. Dómkrafa Eldum rétt þótti vanreifuð og of víðtæk.

Málið á rætur að rekja til vormánaða 2017. Þá urðu forsvarsmenn Eldum rétt þess áskynja að Álfasaga væri að nota auðkennið „Borðum rétt“. Eldum rétt hafði fengið skráningu á vörumerkinu „Eldum rétt“. Síðar sama ár sótti Álfasaga skráningu á vörumerkinu „Máltíð í góðu jafnvægi fyrir þig borðum rétt“. Það vörumerki hefur ekki fengist skráð enn vegna deilu aðila.

Í árslok 2017 óskuðu forsvarsmenn Eldum rétt eftir því að Álfasaga léti af þessari háttsemi. Þeirri fyrirspurn var svarað á þá leið að félagið ætlaði að kanna stöðu sína og svara á nýju ári. Það var ekki gert og sendi Eldum rétt ítrekun í október 2018 sem ekki var brugðist við.

Í júní á þessu ári féllst sýslumaður á lögbannsbeiðni Eldum rétt en í því fólst að lögbann yrði lagt á notkun Álfasögu á auðkenninu „Máltíð í góðu jafnvægi fyrir þig borðum rétt“ og að félagið fengi að starfrækja heimasíðuna bordumrett.is. Umrætt dómsmál var höfðað til staðfestingar á lögbanninu.

Dómkrafa Eldum rétt var á þann veg að viðurkennt yrði með dómi að Álfasögu væri óheimilt að nota umrædd orð- og myndmerki „til sölu og markaðssetningar á matarpökkum og tengdri vöru og þjónustu [Álfasögu]“. Einnig var þess krafist að lögbannið yrði staðfest.

Málatilbúnaður Eldum rétt féll á orðasambandinu „matarpakki“ en að mati dómsins hefur það ekki fasta afmarkaða þýðingu og án samhengis sé það almennt og víðtækt.

„Það bætist svo við að dómkrafan miðar við að [Álfasögu] sé óheimilt að markaðssetja og selja matarpakka og tengda vöru og þjónustu. Ekki verður með góðu móti ráðið hvaða vara [og] þjónusta falli undir og teljast tengdar. Ef dómkrafan er skilgreind þröngt væri hægt að líta svo á að hún næði ekki til tilbúinna rétta [Álfasögu]. Hins vegar ef hún er skilgreint [sic!] rúmt þá getur hún náð yfir allar vörur og þjónustu sem eru matarkyns og settar í pakka eða ílát og seldar almenningi,“ segir í niðurstöðukafla dómsins.

Að mati dómsins var viðurkenningarkrafa Eldum rétt því vanreifuð, óskýr, of víðtæk og óákveðin. Því væri ekki hægt að taka hana upp í dómsorði og henni því vísað frá dómi. Af sömu ástæðu var því synjað að staðfesta lögbann sýslumanns. Að endingu var Eldum rétt gert að greiða eina milljón króna í málskostnað til Álfasögu.

Stikkorð: Dómsmál Eldum rétt