Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir umræðuna í aðdraganda komandi kosninga gefa tilefni til hóflegrar bjartsýni. Hann segir fáa virðst tilbúna til að útlista hvað nákvæmlega er átt við með auknum hagstjórnaraga. „Hófleg bjartsýni virðist einnig viðeigandi þegar horft er til umræðunnar um peningastefnuna, þar sem fáir virðast í raun reiðubúnir til að stíga þau skref sem þörf er á til þess að ná verðbólgunni varanlega niður,“ segir Þórarinn í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Greinin ber yfirskriftina „Spurningin um krónuna“. Þórarinn rekur helstu kosti og galla fyrir því að halda úti eigin mynt á eins litlu myntsvæði og Ísland er. Bent er á að kostnaður af því að þurfa að skipta úr einum gjaldmiðli í annan í milliríkjaviðskiptum gæti numið 5 til 15 milljarða króna á hverju ári eða allt að rúmlega tíunda hluta vöru- og þjónustuafgangs síðasta árs. Þá sé íslenskt fjármálakerfi smátt og dýrt í rekstri, markaðsaðilarnir fáir og veltan tiltölulega lítil.

Þórarinn segir ábatann af krónunni óljósan. Helsti kostur er að sveigjanleiki krónunnar nýtist til að bregðast við sértækum, íslenskum efnahagsskellum. Í lokaorðum greinarinnar segir:

„Að mörgu leyti er hægt að hugsa sér þennan gengissveigjanleika sem tryggingu sem hægt er að virkja þegar á bjátar í þjóðarbúskapnum. Því má líta á kostnaðinn, sem lýst er að ofan, sem iðgjald tryggingarinnar. Allir eru sammála um að skynsamlegt sé að kaupa sér tryggingu gegn áföllum. Hún má hins vegar ekki kosta of mikið, sérstaklega þegar höfð er í huga ein af meginniðurstöðum skýrslu Seðlabankans að aukinn gengissveigjanleiki virðist ekki hafa dregið úr hagsveiflum í litlum ríkjum og að sveiflur í gengi krónunnar endurspegli einungis að litlu leyti aðlögun að innlendum efnahagsskellum. Krónan virðist því lítt hafa dugað til að sinna því sveiflujöfnunarhlutverki sem keypt er dýru verði.

Bætt hagstjórn mun gera okkur kleift að nýta betur kosti sveigjanlegs gengis eigin gjaldmiðils og draga úr kostnaði við að reka svo smátt myntkerfi. Það breytir þó ekki því að áfram mun fylgja því nokkur kostnaður og þótt vissulega muni koma tímabil þar sem sveigjanlegt gengi getur auðveldað aðlögun í kjölfar áfalls er ábatinn til lengri tíma ekki augljós. Spurningin um krónuna verður því áfram til staðar.“