Konur eru með rúmlega 7% lægri laun en karlar samkvæmt könnun sem gerð var á vegum ParX viðskiptaráðgjöf IBM fyrir. Í sambærilegri könnun árið 2006 reyndist óskýrður launamunur 12%.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins (SA) en í byrjun september 2008 gerðu SA, Alþýðusamband Íslands og ParX með sér samstarfssamning um rannsókn á launamun kynja á grundvelli gagnasafns ParX um launagreiðslur 2008.

Rannsóknin er þáttur í samkomulagi aðila um jafnréttisáherslur sem fylgdi kjarasamningunum 17. febrúar 2008. Öll gagnavinnsla fór fram hjá ParX en niðurstöður voru unnar í samstarfi við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

Fram kemur að rannsóknin byggir á upplýsingum úr launabókhaldi 37 fyrirtækja og nær til rúmlega sex þúsund starfsmanna. Rannsakað var hvaða áhrif breyturnar kyn,  starfsheiti, aldur, starfsaldur í fyrirtæki, menntun, vinnutími og fyrirtæki höfðu á  föst laun án óreglulegra yfirvinnugreiðslna.

Eftir að fyrrgreindar breytur höfðu verið teknar með í reikninginn stóð eftir að konur voru með rúmlega 7% lægri laun en karlar eins og fyrr segir.

„Rétt er að gera þann almenna fyrirvara við niðurstöðurnar að þær byggja ekki á slembiúrtaki heldur á gagnasafni  þeirra fyrirtækja kjósa að taka þátt í árlegri greiningu á launagreiðslum,“ segir í tilkynningu SA.

Þá kemur fram að óskýrður launamunur milli kynja er nokkru minni en í mörgum nýlegum rannsóknum hérlendis og má meðal annars rekja muninn til nákvæmrar starfaflokkunar og upplýsinga um menntun starfsmanna í þessari rannsókn.

Sjá nánar á vef SA.