Forstjóri kauphallarinnar í Osló (OSLO) segir að ekki komi til greina að hún sameinist öðrum kauphöllum, þrátt fyrir yfirlýsingu um að sænska kauphöllin (OMX) og sú íslenska (ICEX) hafi hafið samvinnuviðræður sem leitt gætu til samruna.

Ef af samruna ICEX og OMX verður verður Oslóarkauphöllin síðasta kauphöll Norðurlanda og Eystrasaltslandanna sem bindur sig við eitt land. Forstjórinn, Bente Landsnes, hefur ekki áhyggjur af því. "Við höfum þegar fengið þau samlegðaráhrif sem fylgja myndu samrunum," segir hún. "Ef maður vill samruna þarf maður að hafa góðar ástæður fyrir því -- og þær eru ekki fyrir hendi núna," bætir hún við.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir að þessi afstaða Oslóarkauphallarinnar hafi verið kunnug, þegar ákveðið var að hefja samstarfsviðræður við OMX. Hún hafi því engin áhrif á viðræðurnar eða viðhorf fulltrúa íslensku kauphallarinnar. "Við metum það bara sem sérstakt álitaefni, hvort sameining við OMX kemur markaðinum á Íslandi til góða," segir hann við Viðskiptablaðið.

Fyrir viku var tilkynnt um samstarfsviðræður ICEX og OMX, eins og getið var um í Viðskiptablaðinu. Þórður sagði þá að alls ekki væri útilokað að þær leiddu til sameiningar, en að engar ákvarðanir í því efni hefðu verið teknar. Stjórn Kauphallarinnar ákvað í fyrra að hefja ekki samrunaviðræður við OMX eftir að hafa leitað ráða hjá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu Boston Consulting. Þórður sagði forsendur samruna og nánara samstarfs hafa breyst og að aukinn ávinningur yrði af samstarfinu, meðal annars vegna þess að skráð íslensk fyrirtæki gætu orðið hluti af samnorrænni vísitölu OMX, en það hefði ekki legið fyrir í fyrra.. Þá hefði aukin samþjöppun kauphalla í Evrópu og Bandaríkjunum áhrif á áhuga ICEX á auknu samstarfi við OMX.