Sala Össurar hf. á fyrsta fjórðungi ársins dróst saman um 13%, eða um 4% mælt í staðbundinni mynt, frá sama fjórðungi í fyrra. Í tilkynningu frá félaginu er haft eftir Jóni Sigurðssyni forstjóra þess að salan hafi verið minni en vænst hafi verið. „Efnahagsþrengingar á öllum okkar helstu mörkuðum hafa áhrif á söluna á fyrsta ársfjórðungi. Sala á stoðtækjum er í takt við vöxt markaðarins, en sala á spelkum og stuðningsvörum er minni en áætlað var í Bandaríkjunum. Við höfum gert töluverðar breytingar í stjórnun á sölu og markaðsmálum sem við væntum að muni skila árangri. Á árinu 2009 eru margar nýjar og spennandi vörur væntanlegar og voru tvær nýjar vörur kynntar á fyrsta ársfjórðungi,“ er haft eftir Jóni.

EBITDA dregst saman

Hagnaður nam 7,6 milljónum dala, sem er 13% aukning frá fyrra ári, en hagnaður fyrir afskriftir, EBITDA, nam 12,9 milljónum dala og dróst saman um 44%. EBITDA leiðrétt fyrir einskiptisliðum dróst minna saman, eða um 22%.

Erfitt að spá

Í tilkynningu Össurar kemur fram að óvissa og miklar sveiflur á gjaldmiðlum geri það að verkum að erfitt sé að spá fyrir um afkomu félagsins í ár. Stjórnendur geri ráð fyrir að vöxtur standi í stað, mælt í staðbundinni mynt, miðað við að núverandi efnahagsþrengingar hafi takmörkuð áhrif á markaði félagsins.

Stefnt að tvöfaldri skráningu

Þá segir í tilkynningunni að Össur sé að skoða möguleika á tvöfaldri skráningu. Helstu ástæðurnar séu að auka viðskipti og eðlilega verðmyndun á bréfum félagsins og að skapa tækifæri til að auka hlutafé fyrir framtíðarvöxt.

Tengill: Uppgjör Össurar hf. í Kauphöllinni