Sala Össurar á fjórða ársfjórðungi í fyrra dróst saman um 6% frá sama fjórðungi 2007. Þó var söluaukning í staðbundinni mynt upp á 1%, en gengisáhrif voru neikvæð. Sala í Bandaríkjunum var slök í fyrra, að því er segir í afkomutilkynningu, og vöxtur sölu á fjórða fjórðungi var 2%. Aukning sölu í Asíu nam 38% á fjórða fjórðungi í staðbundinni mynt.

Hagnaður nam 4,2 milljónum dala á fjórða fjórðungi og dróst saman um 37% á milli ára. Séu einskiptisliðir undanskildir jókst hagnaðurinn hins vegar um 18% á milli ára. Hagnaður ársins 2008 í heild nam 28,5 milljónum dala og nær fjórfaldaðist frá fyrra ári.

Einskiptisliðir höfðu mikil áhrif á samanburð fjórða fjórðungs

Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, EBITDA, dróst saman á milli ára á fjórða fjórðungi. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir einskiptiskostnaði og einskiptistekjum, en þær voru umtalsverðar á fjórða fjórðungi 2007, er hins vegar um aukningu að ræða. Leiðrétt EBITDA-hlutfall hækkar úr 15,9% á fjórða fjórðungi 2007 í 21,0% á sama fjórðungi í fyrra.

Nettó fjármagnsgjöld drógust saman á milli ára á fjórða fjórðungi vegna minni skuldsetningar og gengisáhrifa.

Sjóðsstreymi verður áfram sterkt

Um rekstrarhorfur segir í tilkynningu að Össur muni áfram sýna arðsemi og sterkt sjóðsstreymi. Efnahagsreikningurinn sé sterkur og traust langtímafjármögnun geri félagið vel í stakk búið til þess að takast á við niðursveiflu sem gæti varað í nokkurn tíma.

„Óvissa vegna efnahagsástandsins í heiminum í dag og óvenju miklar sveiflur á gjaldmiðlum gera það að verkum að erfitt er að spá fyrir um afkomu félagsins fyrir 2009. Miðað við að núverandi efnahagsþrengingar hafi takmörkuð áhrif á markaði félagsins, gera stjórnendur ráð fyrir vægum vexti í staðbundinni mynt og að EBITDA verði á svipuðu bili og 2008. Sterk staða félagsins á markaðnum, innviðir og fjárhagslegur styrkur gerir fyrirtækið vel í stakk búið til þess að nýta sér hugsanleg tækifæri sem gætu skapast við þessar aðstæður,“ segir í tilkynningunni.