*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Innlent 18. september 2020 11:50

Össur að ná vopnum sínum á ný

Sala Össurar dróst saman um 30-40% í apríl vegna faraldursins en nálgast fyrra horf. Búist er við um 0-8% samdrætti það sem eftir er ársins.

Ritstjórn
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.
Eva Björk Ægisdóttir

Sala hjá Össuri er að komast í svipað far og það var áður en heimsfaraldurinn skall á samkvæmt nýrri afkomuspá frá Össuri.

Í mars hóf sala hjá félaginu að dragast saman, um það leyti sem faraldurinn fór að dreifast um Vesturlönd. Í apríl nam sala félagsins 60-70% af sölunni í sama mánuði fyrir ári. Síðan þá hefur salan aukist í hægum skrefum á ný. Í ágúst og fram í miðjan september var salan um 90-100% af sölu sama tímabils fyrir ári. 

Í tilkynningu frá Össuri kemur fram að ástandið á heilbrigðisstofnunum vegna faraldursins hafi ollið minni eftirspurn eftir vörum félagsins. Til að mynda hefur aðgerðum víða verið fækkað. Þá hefðu færri slys átt sér stað á meðan faraldurinn hefur geisað, sem dró einnig úr sölu á vörum félagsins.

Nú sé sala á lykilmörkuðum í Evrópu og Asíu að taka við sér aftur, og líklega sé nokkur uppsöfnuð eftirspurn til staðar. Salan á öðrum mörkuðum, sér í lagi á Bretlandi og í Bandaríkjunum, sé þó enn sveiflukennd.

Að því gefnu að engar meiriháttar breytingar verði tengdar faraldrinum býst Össur við 0 til 8% sölusamdrætti á seinni hluta ársins. Hins vegar sé óvissan enn nokkur. Össur var rekið með 1,5 milljarða króna tapi á fyrri helmingi ársins en sala félagsins dróst saman um 23%. Hlutabréf félagsins hafa fallið um ríflega 12% á þessu ári í dönsku kauphöllinni.

Stikkorð: Jón Sigurðsson Össur