Hlutabréf í Össuri hf. hafa undanfarna mánuði og misseri skorið sig frá öðrum bréfum í Kauphöllinni hvað varðar veltu, en viðskipti með bréf Össurar hafa verið mun minni en með önnur og jafnvel miklu minni félög. Tengist það eflaust því að félagið er skráð í tvær kauphallir, þá íslensku og þá dönsku. Íslenska kauphöllin ákvað að halda áfram skráningu bréfa Össurar í óþökk félagsins eftir skráninguna í Danmörku í september 2009.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir í samtali við vb.is að sömu grundvallarforsendur eigi við nú og þegar ákvörðunin var upphaflega tekin og því standi ekki til að taka bréf Össurar úr viðskiptum í Kauphöllinni. „Um 3.000 Íslendingar eiga hlutabréf í Össuri og vegna gjaldeyrishafta væru þeir, án íslensku skráningarinnar, í þeirri stöðu að geta ekki bætt við hlut sinn nema með því að selja aðrar erlendar eignir á móti.“

Hann segir jafnframt að sú ákvörðun að hafa Össur í OMX I6 Úrvalsvísitölunni byggi á sömu forsendum og með önnur félög í vísitölunni. Hann segir að það hljóti að koma að þeim tímapunkti að félögum í vísitölunni verði fjölgað, en að hann geti ekki sagt til um það að svo stöddu.