„Erfiðir tímar eru en okkur gengur vel og við erum að bæta fjárhagslegan styrk okkar.“

Þetta sagði Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, á uppgjörsfundi félagsins í hádeginu.

Eins og greint var frá í morgun birti Össur uppgjör sitt fyrir þriðja fjórðung ársins fyrir opnun markaða í dag. Hagnaður félagsins nam 13,7 milljónum dollara, í samanburði við 2,2 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.

Stór hluti þess hagnaðar, eða 8,8 milljónir dala, skýrist af einskiptishagnaði vegna sölu á sáraumbúðalínu félagsins.

Undirliggjandi rekstur félagsins sýnir bata að sögn forstjóra og fjármálastjóra félagsins.

Jón Sigurðsson segir reksturinn heilbirgðan og að nú sé lögð áhersla á arðsemi og innri vöxt fremur en ytri vöxt. Á fundinum kom m.a. fram að arðsemi í rekstrinum hafi aukist og að fjárhagsstaðan sé sterk, en eiginfjárhlutfallið nemur 43%.

Rekstrarniðurstöður þriðja fjórðungs eru þær bestu í sögu félagsins, sem er í þversögn við núverandi ástand hjá flestum öðrum fyrirtækjum.

Jón Sigurðsson segir núverandi ástand ekki hafa snert fyrirtækið enn sem komið er en að enginn rekstur verði ósnortinn af langtíma samdrætti í efnahagslífi heimsins. Í viðtali við blaðamann, sem birt verður hér á vefnum í dag, ræðir Jón þau mál frekar.

_______________________________________

Nánar verður fjallað um uppgjör Össurar í Viðskiptablaðinu á morgun.

Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld, lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .