Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra boðaði breytingar á skattaumhverfi sprotafyrirtækja í ræðu sinni á aðalfundi Marels í gær. Er þannig ætlunin að heimila frádrátt á skattstofni rannsóknar- og þróunarkostnað.

Í ræðu sinni sagði Össur: „Við þurfum að gera þetta með þeim hætti að skilgreindum nýsköpunarfyrirtækjum eins og ykkur verði gert kleift að draga frá skattstofni skilgreindan rannsóknar- og þróunarkostnað og þetta eru ekki bara orð sem að ég er að segja við ykkur. Þetta var partur af atvinnupakka ríkisstjórnarinnar, ein af ellefu tillögum sem að ríkisstjórnin samþykkti frá mér síðastliðinn föstudag eftir að ég hafði átt samtöl meðal annars við forvígismenn í þessu fyrirtæki og núna bíður það okkar að smíða þetta í frumvarpsform.” Stefnt væri að því að frumvarp yrði lagt fyrir Alþingi strax eftir kosningar, á vorþingi sagði ráðherra.