*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 12. maí 2020 16:17

Össur borgar hlutabætur til baka

Bótagreiðslur fyrir um 20 milljónir sem 165 íslenskir starfsmenn stoðtækjafyrirtækisins fengu verða endurgreiddar.

Ritstjórn
Jón Sigurðsson er forstjóri Össurar.
Eva Björk Ægisdóttir

Össur hf. hefur tekið ákvörðun um að endurgreiða Vinnumálastofnun það fé sem runnið hefur til 165 starfsmanna félagsins á meðan þeir voru í hlutastarfi vegna COVID-19 faraldursins og hætta að nota úrræðið hér á landi.

Félagið segir að þegar ákveðið var, um miðjan apríl, að nýta sér úrræði stjórnvalda hefði sala fyrirtækisins á heimsvísu minnkað um helming og var enn á niðurleið. Segir félagið að ljóst hafi verið að þessi þróun myndi hafa mikil áhrif á fjárhagsstöðu fyrirtækisins og því var gripið til víðtækra aðgerða til að minnka bæði umsvif og kostnað.

Þessar aðgerðir hafi haft áhrif á störf og starfshlutfall um 1.000 starfsmanna fyrirtækisins um allan heim, þar af 165 á Íslandi. Sú óvissa sem ríkt hefur um framtíðina hefði, án hlutabótaúrræðisins á Íslandi og sambærilegra mótvægisaðgerða í öðrum löndum, leitt til uppsagna hérlendis sem erlendis.

Nú mánuði síðar er enn mikil óvissa, en félagið segir merki um að markaðir fyrirtækisins séu að taka við sér á ný. 
Jafnframt vill fyrirtækið taka fram að ákvörðun um arðgreiðslu vegna afkomu ársins 2019 var afgreidd áður en áhrif af COVID-19 faraldrinum voru ljós.

Auk þess hafi félagið hætt kaupum á eigin bréfum 17. mars, um mánuði áður en Össur nýtti sér úrræði stjórnvalda. 

„Við erum stjórnvöldum hérlendis og erlendis afar þakklát fyrir aðgerðir sem hafa gert okkur kleift að viðhalda verðmætu ráðningarsambandi við okkar starfsmenn,“ segir m.a. í yfirlýsingu félagsins.

„Nú liggur fyrir að ekki er full samstaða hér á landi um að fyrirtæki nýti hlutabótaúrræðið. Það er okkur mikils virði að starfa í góðri sátt við samfélögin þar sem við störfum. Við greiðum því til baka alla þá fjármuni sem starfsmenn okkar hafa fengið hér á landi vegna hlutabótarleiðarinnar, sem námu um 20 milljónum króna á tímabilinu 18.-30. apríl.“

Stikkorð: Össur arður endurkaup hlutabætur