Stjórn Össurar hf. ákvað í dag að ráðast í takmarkað og lokað útboð á allt að 29.500.000 nýjum hlutum í Össuri á markaðsverði án forkaupsréttar núverandi hluthafa.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en útboðið fer fram á grundvelli söfnunarferlis þar sem boðnir verða að hámarki 29.500.000 hlutir að nafnvirði 1 kr. hver sem svarar til u.þ.b. 7% af útistandandi hlutafé Össurar, að nafnvirði 423.000.000 kr. Gert er ráð fyrir að útboðsverðið og umfang útboðsins verði tilkynnt á NASDAQ OMX eigi síðar en á morgun, 3. nóvember 2009.

Þá kemur fram að útboðsgengið verður ákvarðað að loknu söfnunarferlinu. Miðað við lokagengið hinn 2. nóvember 2009, sem var DKK 5,2, mun brúttósöluandvirði bréfanna í útboðinu svara til u.þ.b. 153 milljónum DKK (30 milljónir Bandaríkjadala) ef miðað er við að fjárfestar skrifi sig fyrir öllu hlutafénu sem í boði er. SEB Enskilda er umsjónaraðili útboðsins.

„Tilgangur útboðsins er að auka fjárhagslegan sveigjanleika félagsins og styrkja grunninn að framtíðarvexti þess,“ segir í tilkynningunni.

„Stjórnendur Össurar telja að langtímahorfur í rekstri félagsins séu mjög góðar. Stöðugt er fylgst með markaðsþróun og fjárfestingartækifærum, en Össur er í góðri stöðu til þess að færa sér í nyt tækifæri sem skapast.“

Þá kemur jafnframt fram að Össur hefur ennfremur hug á að auka flot á bréfum félagsins og bæta þar með seljanleika og verðmyndun bréfanna.

Í tilkynningunni kemur fram að útboðið beinist að tilteknum fagfjárfestum og öðrum dönskum og alþjóðlegum fjárfestum. Útboðið beinist ekki að fjárfestum sem hafa búsetu á Íslandi. Í útboðinu hafa núverandi hluthafar Össurar fallið frá forkaupsrétti sínum samkvæmt samþykktum félagsins.

180 daga biðtími

Þá kemur jafnframt fram að Össur hefur fallist á að í 180 daga eftir að nýju hlutirnir hafa verið teknir til viðskipta á NASDAQ OMX muni félagið ekki gefa út eða tilkynna opinberlega um áform um að gefa út nein hlutabréf eða verðbréf, sem eru breytanleg eða skiptanleg í hlutabréf, eða sem fela í sér rétt til þess að skrifa sig fyrir hlutum, án fyrirfram samþykkis umsjónaraðila útboðsins hverju sinni (sem ekki skal synja um slíkt samþykki að ástæðulausu), nema að því leyti sem skylt kann að vera að gefa út slíka hluti skv. íslenskum eða dönskum lögum eða í tengslum við fjárfestingar í fyrirtækjum, enda verði slíkir nýir hlutir ekki umfram 5% af hlutafé félagsins á þeim tíma sem fjárfestingin á sér stað, eða ef starfsmenn nýta sér kauprétt sem þeir hafa öðlast samkvæmt gildandi kaupréttaráætlunum.

Nýju hlutirnir munu jafnframt njóta réttinda til jafns við fyrri hlutabréfi í Össuri samkvæmt tilkynningunni. Nýju hlutirnir verða skráðir á nafn eigenda sinna í hlutaskrá félagsins og gefnir út og skráðir hjá Verðbréfaskráningu Íslands og VP Securities.

„Engum hlutum, þ.m.t. nýjum hlutum, fylgja nú eða munu fylgja nein sérréttindi;“ segir í tilkynningunni en nýju hlutirnir verða framseljanlegir og munu að öllu leyti veita sama rétt og núverandi hlutabréf. Réttindi, sem fylgja nýju hlutunum, þ.m.t. atkvæðaréttur og réttur til arðgreiðslu, munu gilda frá þeim tíma sem hlutafjáraukningin er skráð hjá Fyrirtækjaskrá.