*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 21. desember 2007 10:41

Össur er ánægður með LV Power þótt hann hafi frétt af því í sjónvarpinu

Ritstjórn

"Ég, eins og hver annar almennur borgari, sá þetta bara í sjónvarpinu," segir Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra í samtali við Viðskiptablaðið, þegar hann er inntur eftir því hvort hann sem iðnaðarráðherra hafi verið upplýstur um aukin umsvif Landsvirkjunar Power, dótturfélags Landsvirkjunar, nú um áramótin. "Ég er þeirrar skoðunar að þegar ríkisfyrirtæki fer með þessum hætti inn á nýjar brautir sé það lágmarkskurteisi að kynna það þeim ráðherrum sem málið varðar og gefa þeim eftir atvikum kost á að kynna það í ríkisstjórn." Össur tekur þó fram, burtséð frá aðdragandanum, að sér finnist ákvörðunin um LV Power jákvætt skref. Hann segir enn fremur að umrætt skref sé algjörlega í samræmi við hina eindrægnu yfirlýsingu í stefnu ríkisstjórnarinnar um að brjóta eigi orkufyrirtækjum leið til vaxtar á erlendri grund.

Eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu  rennur verkfræði- og framkvæmdasvið Landsvirkjunar inn í LV Power og eftir áramót verða því um fjörutíu manns starfandi hjá þessu dótturfélagi Landsvirkjunar. Forstjóri verður Bjarni Bjarnason. Eigið fé félagsins verður átta milljarðar. Verkefni þess verður meðal annars að sinna orkutengdum útrásarverkefnum og nýta þannig þá þekkingu í þeim efnum sem hefur skapast hjá LV.

Í takt við landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, kvaðst í samtali við Viðskiptablaðið í gær sammála formanni Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, um það að stofnun Landsvirkjunar Power væri í takt við það sem fram kæmi í landsfundarályktun flokksins. "Það er svo í stórum flokki að skoðanir geta oft verið skiptar um einstök stefnumál eins og til dæmis varðandi einkavæðingu orkufyrirtækja. En við sjálfstæðismenn erum því vanir að komast að niðurstöðu með málamiðlun á landsfundum," svaraði Vilhjálmur þegar hann var spurður hvort hugmyndafræðilegur ágreiningur væri innan Sjálfstæðisflokksins um útrás opinberra fyrirtækja.

Vilhjálmur sagði að hann hefði setið um langan tíma í stjórn Landsvirkjunar. Á þeim tíma hefði fyrirtækið staðið í nokkrum útrásarverkefnum. "Nú er ljóst að þegar Þjósárvirkjunum lýkur verður lítið byggt af vatnsaflsvirkjunum á Íslandi á næstu árum. Aftir á móti hefur Landsvirkjun byggt upp í áratugi mikla þekkingu á hönnun, undirbúningi og byggingu vatnsaflsvirkjana og þar er fyrir hendi mikið tæknivit. Það er því eðlilegt að okkar hagsmunir felast í því að viðhalda þessari þekkingu innan landsins og það gerum við með því að Landsvirkjun Power, til viðbótar við stór verkefni innanlands, leitist við að selja þessa þekkingu út fyrir landsteinana, meðal annars með því að þróa viðskipahugmyndir sem aðrir myndu væntanlega sjá um að fjármagna og eiga því LP ætlar sér ekki að fara að fjárfesta sem eigandi í virkjunum erlendis.  LP gæti jafnvel annast rekstur fyrir aðra sem taka áhættuna."

Vilhjálmur ítrekaði að ef við ætluðum ekki að tapa þessari þekkingu úr landi yrðum við að viðhalda henni. "Það gerum við fyrst og fremst með því að sinna verkefnum erlendis með þvi að selja okkar þekkingu."

Ómakleg skrif gagnvart fyrrverandi formanni flokksins

Vilhjálmur sagði enn fremur í samtali við Viðskiptablaðið að bloggskrif Össurar um að Davíð Oddsson Seðlabankastjóri hefði pantað árás gegnum honum í REI-málinu væru ómakleg. "Við Davíð erum nánir vinir og höfum verið það í áratugi," sagði hann meðal annars.