Aðgangur að Evrópusambandinu fæli í sér aðgang sjávarútvegsins, sem og allra annarra fyrirtækja, að ódýrara lánsfjármagni.

Þetta sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á landsfundi Samfylkingarinnar nú fyrir stundu. Í ræðu sem Össur flutti undir dagsskrárliðnum „Tölum um tækifærin – áherslur ESB í atvinnu- og menntamálum“ fór ráðherrann yfir það sem hann sagði vera kosti þess að ganga inn í Evrópusambandið.

Össur sagði það misskilning að sjávarútvegur og landbúnaður myndi líða fyrir aðild að ESB. Hann sagði þvert á móti að aðild að sambandinu myndi búa til „girðingu“ utan um íslenskan sjávarútveg eins og hann orðaði það.

Þá sagði Össur jafnframt að landbúnaðurinn myndi styrkjast við aðild og það væri hvalreki fyrir íslenska bændur að fá aðgang að styrkjakerfi ESB í landbúnaðarmálum.

Í lok ræðunnar hvatti fundarstjóri landsfundargesti til  að rísa úr sætum og klappa vel fyrir utanríkisráherra fyrir baráttu hans fyrir ESB aðild Íslands.