Össur Skarphéðinsson sagðist á morgunfundi fransk-íslenska viðskiptaráðsins í dag hafa fulla trú á framtíð evrunnar. Hann sagði íslenska fjölmiðla gjarnan hafa eftir þeim enskumælandi að endarlok evrunnar væru nærri. Sjálfur hefði hann fulla trú á gjaldmiðlinum, og ábata Íslands af því að ganga inn í myntbandalagið, og benti meðal annars á sterka stöðu evrunnar miðað við dollar í ágústmánuði síðastliðnum.

Morgunfundurinn í dag hófst á formlegri stofnun, eða raunar endurvakningu, hins fransk-íslenska viðskiptairáðs að viðstöddum fjölda gesta, jafnt íslenskra sem franskra. Við setninguna var Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, veitt viðurkenning fyrir störf í þágu beggja landa.

Össur var fyrstur frummælenda og ræddi hann meðal annars nýútgefna skýrslu seðlabankans. Þar sagði hann auðvelt að lesa á milli línanna að evran væri skynsamlegasta framtíðarlausn Ísland. Össur stóðst að vanda ekki mátið og sló á rétta strengi þar sem hann sagðist hvorki geta talist ballet-dansari eða boxari við mat á slíkum möguleikum sem Íslandi standa til boða og lauk máli sínu með tilvitnun í boxarann Muhammed Ali.