Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) og Össur hf. (Össur)  hafa skrifað undir sjö ára lánasamning að fjárhæð 50 milljónir evra eða því sem jafngildir 6,1 milljarði íslenskra króna til að fjármagna að hluta rannsóknar- og þróunarstarf fyrirtækisins á árunum 2016–2019 sem og til að endurfjármagna kaup á stoðtækjafyrirtækinu Touch Bionics. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Rannsóknar- og þróunarstarf Össurar miðar að því að finna nýjar lausnir á sviði stoðtækja og stuðningsvara. Össur hefur náð miklum árangri á sviði rannsókna og þróunar og þessi nýja fjárfesting mun bæði auðvelda aukningu vöruframboðs og styðja við vöxt og framleiðni. Helsta rannsóknar- og þróunardeild Össurar er í Reykjavík, en þar starfa ríflega þrír fjórðu hlutar starfsmanna deildarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Einnig mun lánið verða nýtt að hluta til að endurfjármagna kaup Össurar á Touch Bionics, sem er skoskur framleiðandi gervihanda. Gengið var frá kaupunum í apríl 2016. Kaupin gera fyrirtækinu kleift að að bjóða viðskiptavinum á stoðtækjamarkaðnum heildstætt úrval vélrænna stoðtækja.

„Þessi fjárfesting í rannsóknar- og þróunarstarfi sem fram fer á Íslandi auk kaupanna á fyrirtækinu Touch Bionics, mun efla vöruþróun Össurar. Hún mun jafnframt stuðla að áframhaldandi forystu fyrirtækisins á alþjóðamarkaði bæði fyrir vélræna gervifætur og gervihendur auk lausna fyrir spelkur og stoðtæki,“ segir Thomas Wrangdahl, forstöðumaður lánasviðs NIB við tilefnið.