Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í gær, þriðjudag, formlegan fund með Dominique Strauss-Kahn aðalframkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Fundurinn fór fram í New York.

Þetta kemur fram í stuttri tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Þar segir að utanríkisráðherra hafi farið ítarlega yfir stöðu efnahagsmála á Íslandi og framgang efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar og AGS. Einnig hafi ráðherrann útskýrt stöðuna í Icesave-málinu fyrir framkvæmdastjóranum.

Ekkert meira kemur fram í tilkynningunni.

Sem kunnugt er hefur staðið til allt frá því í febrúar að stjórn AGS taki efnahagsáætlunina til endurskoðunar og í kjölfarið greiði út aðra greiðslu láns AGS til Íslendinga. Því hefur hins vegar ítrekað verið frestað.

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að stjórnvöld gerðu ekki ráð fyrir því að endurskoðunin yrði tekin fyrir í september. Þá var haft eftir forsætisráðherra að það væri óþægilegt að Icesave-deilan væri að tefja afgreiðsluna.

Bretar og Hollendingar hafa nú skilað Íslendingum svokölluðum óformlegum hugmyndum sínum við Icesave-fyrirvarana. Íslensk stjórnvöld hafa ekki ákveðið hvernig bregðast eigi við þeim.

Í Icesave-ríkisábyrgðinni, sem Alþingi samþykkti í lok ágúst, segir að fjármálaráðherra fái ekki heimild til að veita hana fyrr en Bretar og Hollendingar samþykkja fyrirvara þingsins. Því er ljóst að Alþingi þarf að koma saman á ný verði lagðar til frekari breytingar á fyrirvörunum eða ábyrgðinni.