Össur hækkaði mest af félögum á aðallista í Kauphöll Islands daginn eftir birtingu uppgjörs þriðja ársfjórðungs, samkvæmt samantekt Greiningar Íslandsbanka. Hækkun Össurar daginn eftir birtingu nam 3,9%.

Næst mest var hækkun Vodafone 3,2% en segja má að með uppgjöri þriðja ársfjórðungs hafi félaginu loksins fengið uppreisn æru eftir töluvert ýkt viðbrögð við slæmu uppgjöri fyrsta ársfjórðungs. Yfir nóvember mánuð hækkaði Vodafone samtals um 4,8% og stóð gengi félagsins í 29,75 krónum á hlut í lok hans.

Í kjölfar árásar á vef félagsins síðustu helgi lækkaði gengi félagsins hins vegar töluvert aftur og stendur nú í kringum 26 krónur á hlut. Gengi félagsins hafði þó samtals yfir október- og nóvembermánuð hækkað verulega og hefur lækkunin nú í byrjun desember ekki náð að eyða að fullu þeirri hækkun.