Gengi hlutabréfa stoðtækjaframleiðandans Össurar hækkaði um 4,97% í Kauphöllinni í dag. Þetta var mesta hækkun dagsins. Ekki var mikil velta á bak við gengishækkunina eða 25 milljónir króna. Gengi hlutabréfa Össurar stóð í lok dags í 190 krónum á hlut og hefur það ekki verið hærra síðan seint í apríl í vor.

Á sama tíma hækkaði gengi bréfa Icelandair Group um 0,67%, fasteignafélagsins Regins um 0,58%, Vodafone fór upp um 0,4% og VÍS um 0,38%. Þá hækkaði gengi hlutabréfa Haga um 0,15%.

Hins vegar lækkaði gengi bréfa Marel um 0,38% og var þetta eina lækkunin á hlutabréfamarkaði.

Heildarveltan í Kauphöllinni nam rétt tæpum 993 milljónum króna. Mesta veltan var með hlutabréf Marel eða upp á 543 milljónir króna. Þá nam veltan með hlutabréf Haga 230 milljónum króna.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,05% og stóð hún í tæpum 1.145 stigum undir lok dags.