Stoðtækjaframleiðandinn Össur hagnaðist um 16 milljónir Bandaríkjadala eða sem nemur 1,7 milljörðum íslenskra króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs eða 11% af sölu og jókst um 43% frá sama tímabili í fyrra. Hagnaður jókst um 33% á fyrstu níu mánuðum ársins og nam 10% af sölu.

Sala í þriðja ársfjórðungi 2018 nam 145 milljónum Bandaríkjadala (16 milljörðum íslenskra króna). Innri vöxtur nam 7% í fjórðungnum. Innri vöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins nam 5%.

Innri vöxtur í stoðtækjum var 11% og sala í spelkum og stuðningsvörum jókst um 2%. Söluvöxtur var einna helst drifinn áfram af hátæknivörum félagsins.

EBITDA fyrir einskiptisliði í þriðja ársfjórðungi 2018 nam 30 milljónum Bandaríkjadala (3,2 milljörðum íslenskra króna) eða 21% af sölu, samanborið við 18% af sölu á sama tímabili í fyrra. Aukning í EBITDA framlegð er tilkomin vegna aukinnar sölu á hátæknivörum og stærðarhagkvæmni í rekstri.

Fjárhagsætlun fyrir fjárfestingar hefur verið uppfærð vegna verkefna sem eiga að auka hagkvæmni í rekstri. Aðrir liðir áætlunarinnar eru óbreyttir. Fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 2018 er því 4-5% innri vöxtur, um 19% EBITDA framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða, um 5% fjárfestingarhlutfall (áður um 4%) og virkt skattahlutfall á bilinu 23-24%.

Össur keypti nýlega tvö fyrirtæki með sameiginlega sölu upp á 40 milljónir Bandaríkjadala (4,3 milljarðar íslenskra króna). Yfirtökurnar höfðu engin áhrif á rekstrarniðurstöðu í þriðja ársfjórðungi en þær munu hafa áhrif í fjórða ársfjórðungi 2018.

„Við erum ánægð með söluvöxt og reksturinn í fjórðungnum. Söluvöxtinn má aðallega rekja til sölu á stoðtækjum, sem jókst um 11%, og sölu á hátæknivörum í okkar helstu vöruflokkum. Auk þess var góður vöxtur í löndum sem teljast til nýmarkaðsríkja. Rekstrarhagnaður hefur aukist í takt við  áætlanir vegna góðs söluvaxtar, sem leiðir af sér stærðarhagkvæmni, aukinnar sölu á hátæknivörum og verkefna til að auka hagkvæmni í rekstri. Sjóðstreymi í fjórðungnum var gott í takt við rekstrarniðurstöðuna,“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.