*

sunnudagur, 23. febrúar 2020
Innlent 25. júlí 2019 08:19

Össur hagnaðist um 2,8 milljarða króna

Hagnaður nam 23 milljónum Bandaríkjadala í fjórðungnum (2,8 milljörðum íslenskra króna) og jókst um 15% frá sama tímabili í fyrra.

Ritstjórn
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.
Eva Björk Ægisdóttir

Hagnaður nam 23 milljónum Bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi þessa árs eða sem er um 2,8 milljarðar íslenskra króna og jókst um 15% frá sama tímabili í fyrra. 

Sala nam 179 milljónum Bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi (22 milljörðum íslenskra króna) og var vöxtur í staðbundinni mynt 18% og innri vöxtur 7%. Sala á fyrsta helming ársins nam 339 milljónum Bandaríkjadala (41 milljörðum íslenskra króna) og var vöxtur í staðbundinni mynt 19% og innri vöxtur 7%.

Össur hefur samið um kaup á alþjóðlega stoðtækjaframleiðandanum College Park Industries og gert er ráð fyrir að kaupin gangi í gegn seinna á árinu 2019.

Hagnaður sem hlutfall af sölu nam 13% samanborið við 12% af sölu á sama tímabili í fyrra. Hagnaður nam 37 milljónum Bandaríkjadala á fyrsta helming árisns (4,5 milljörðum íslenskra króna) og jókst um 23% frá sama tímabili í fyrra.

Innri vöxtur í stoðtækjum var 11% í fjórðungnum og innri vöxtur í spelkum og stuðningsvörum var 1%. Góður söluvöxtur í stoðtækjum er einna helst tilkominn vegna góðrar sölu á hátæknivörum og nýjum vörum.

EBITDA nam 42 milljónum Bandaríkjadala í fjórðungnum (5,2 milljörðum íslenskra króna) og jókst um 33% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA framlegð var 24% samanborið við 20% á sama tímabili í fyrra. EBITDA framlegð án áhrif af innleiðingu nýrra reikningsskilastaðla (IFRS16) var 21%. Aukningu í EBITDA framlegð má rekja til aukinnar sölu á hátæknivörum, hagræðingar í rekstri og aukinnar stærðarhagkvæmni. EBITDA nam 72 milljónum Bandaríkjadala á fyrsta helming ársins (8,8 milljörðum króna) eða 21% af sölu.

Fjárhagsáætlun fyrir innri vöxt verið uppfærð í 5-6% (áður 4-5%). Fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 2019 er því 5-6% innri vöxtur, um 23% EBITDA framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða, 4-5% fjárfestingarhlutfall og virkt skattahlutfall á bilinu 23-24%.

„Við erum ánægð með að ljúka fyrsta helmingi ársins með góðum söluvexti og sérstaklega góðri niðurstöðu í stoðtækjarekstri félagsins. Hér má nefna góða sölu á hátæknivörum eins og PROPRIO fætinum, þar sem gervigreind stjórnar virkni stoðtækisins. Í ljósi góðs söluvaxtar á fyrsta helmingi ársins, hefur fjárhagsætlun félagsins fyrir innri vöxt verið uppfærð í 5-6% fyrir árið. Rekstrarhagnaður félagsins jókst með aukinni sölu á hátæknivörum, rekstrarhagræðingu og aukinni stærðarhagkvæmni. Við sömdum nýlega um kaup á alþjóðlega stoðtækjaframleiðandanum College Park Industries og gerum ráð fyrir að kaupin gangi í gegn seinna á árinu 2019,“ Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.

Stikkorð: Jón Sigurðsson Össur Uppgjör