Össur skilaði 5,8 milljarða íslenskra króna hagnaði á árinu 2022, eða sem nemur 43 milljónum dala. Það samsvarar 6% af veltu stoðtækjaframleiðandans. Félagið birti ársuppgjör í morgun.

Sala Össurar í fyrra nam 97 milljörðum króna eða um 719 milljónum dala. Söluvöxtur á árinu nam 7% í staðbundinni mynt og innri vöxtur var 4%. Innri vöxtur var 4% á stoðtækjum og 3% á spelkum og stuðningsvörum á árinu.

Í uppgjörstilkynningu Össurar segir að styrking Bandaríkjadalsins gagnvart evru og öðrum lykilmyntum á árinu hafði neikvæð áhrif á tekjur félagsins að fjárhæð 47 milljónir dala eða 6,3 milljarðar króna samanborið við fyrra ár.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir að teknu tilliti til einskiptisliða (EBITDA before special items) nam 17,3 milljörðum króna eða 18% af veltu á árinu. Handbært fé frá rekstri nam 12,4 milljörðum króna eða 13% af veltu ársins 2022.

Skuldsetningarhlutfall Össurar var 3.2x í lok árs 2022. Fram kemur að það sé utan bilsins 2.0-3.0x sem skilgreint er í stefnu félagsins um fjármagnsskipan og arðgreiðslur en frávikið megi rekja til hærri skuldsetningar í tengslum við endurnýjun leigusamninga, lægra handbærs fjár frá rekstri og gengisáhrifa.

Fjárhagsáætlun Össurar fyrir árið 2023 gerir ráð um 4-8% innri vexti, um 17-20% EBITDA framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða, 3-4% fjárfestingarhlutfalli og virku skatthlutfalli á bilinu 23-24%.

„Þrátt fyrir áskoranir í alþjóðlega efnahagsumhverfinu höfum við vaxið í báðum vöruflokkum okkar og á öllum mörkuðum árið 2022. Niðurstöður fjórða ársfjórðungs voru góðar og þá sérstaklega söluvöxtur stoðtækja á mörkuðum í Ameríku og Evrópu,“ segir Sveinn Sölvason, forstjóri Össurar.

„Með frekari vöxt og nýsköpun að leiðarljósi settum við Power Knee, heimsins fyrsta stoðtækjahné með innbyggðum mótor, á markað á öllum helstu markaðssvæðum okkar í byrjun árs og erum mjög ánægð með viðtökurnar. Annar hápunktur á árinu voru kaupin á Naked Prosthetics, bandarísku fyrirtæki sem er leiðandi í mekanískum stoðtækjum fyrir einstaklinga sem misst hafa framan af fingri eða hluta af hendi.“