*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Innlent 26. október 2021 08:20

Össur hagnast um 2,2 milljarða

Sala stoðtækjaframleiðandans nam 22,8 milljörðum króna og innri vöxtur var 4% á þriðja ársfjórðungi.

Ritstjórn
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar
Eva Björk Ægisdóttir

Össur hagnaðist um 2,2 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 2,0 milljarða á sama tímabili árið áður. Alls hefur stoðtækjaframleiðandinn hagnast um 6,1 milljarð á fyrstu níu mánuðum ársins en afkoma félagsins á sama tíma á síðasta ári var jákvæð um 546 milljónir.

Sala Össurar á þriðja fjórðungi nam 22,8 milljörðum króna. Innri vöxtur var jákvæður um 4% en til samanburðar var hann neikvæður um 5% á sama tíma árið áður. Söluvöxtur í staðbundinni mynt á þriðja fjórðungi fór úr 1% í 4% á milli ára. Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir í fréttatilkynningu að sala félagsins hafi verið sterk í Evrópu og Asíu á fjórðungnum en verr hafi gengið í Ameríku, stærsta markaði Össurar, m.a. vegna áhrifa Delta-afbrigðis Covid-19.

Innri vöxtur á stoðtækjum var jákvæður um 7% á þriðja ársfjórðungi en stöðugur í spelkum og stuðningsvörum. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 var innri vöxtur jákvæður um 12% á stoðtækjum, spelkum og stuðningsvörum.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 4,7 milljörðum króna og var 21% af veltu á þriðja ársfjórðungi, sama og á þriðja fjórðungi síðasta árs. Handbært fé frá rekstri nam 4 milljörðum króna eða 17% af veltu á þriðja ársfjórðungi og nam 11,2 milljörðum íslenskra króna eða 17% af sölu á fyrstu níu mánuðum ársins.

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar:

„Í takt við væntingar, var góður söluvöxtur á mörkuðum í Evrópu og Asíu en Delta-afbrigði COVID-19 hafði aðallega áhrif á söluna í Ameríku sem er okkar stærsti markaður. Þrátt fyrir að innri vöxtur hafi orðið fyrir áhrifum af lægri sölu í Ameríku, styrkir árangurinn á öðrum lykilmörkuðum þá trú okkar að langtímahorfur á stoðtækja- og spelku- & stuðningsmarkaðinum muni ekki breytast og við séum á góðri leið.

Þar sem forysta í tækniþróun hefur verið í forgrunni í 50 ára sögu félagsins fögnuðum við þegar íþróttafólk sem notar stoðtæki frá Össuri vann til 28 verðlauna á Ólympíuleikum fatlaðra og setti fjögur ný heimsmet og þrjú ný Ólympíumet fatlaðra. Ég er stoltur af framlagi starfsmanna Össurar um heim allan og þakklátur fyrir okkar langvarandi og góða samband við viðskiptavini og notendur.“

Stikkorð: Jón Sigurðsson Össur