Össur hagnaðist um 19 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 2,4 milljörðum íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi, sem nemur um 10% af veltu fyrirtækisins. Á öðrum fjórðungi síðasta árs tapaði Össur 18 milljónum dala, sem var það tímabil var þó litað af áhrifum Covid faraldursins auk einskiptisliða í tengslum við sölu dótturfyrirtækja. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Össurar.

Salan á fjórðungnum nam 24 milljörðum íslenskra króna. Innri vöxtur var jákvæður um 32% en söluvöxtur var jákvæður um 33% í staðbundinni mynt. Innri vöxtur var jákvæður um 30% á stoðtækjum og jákvæður um 36% á spelkum og stuðningsvörum. Á fyrri helmingi ársins 2021 var innri vöxtur 16% á stoðtækjum, spelkum og stuðningsvörum.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 5,3 milljörðum íslenskra króna og var 22% af veltu á öðrum ársfjórðungi samanborið við 9% á öðrum ársfjórðungi síðasta árs.

Á öðrum ársfjórðungi gekk Össur frá kaupum á fyrirtækjum með alls 11 milljónir Bandaríkjadala í ársveltu, eða um 1,4 milljarða íslenskra króna.

Össur hefur uppfært stefnu félagsins um fjármagnsskipan og arðgreiðslur á þá leið að skuldsetningarhlutfallið hefur verið hækkað í 2.0x-3.0x nettó skuldir á móti EBITDA, úr 1.5-2.5x. Skuldsetningarhlutfallið var 3.0x í lok annars ársfjórðungs.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 gerir ráð fyrir 10-15% innri vexti, 21-23% EBITDA framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða, 3-4% fjárfestingarhlutfalli og virku skatthlutfalli á bilinu 23-24%. Eins og stendur gera stjórnendur ráð fyrir að innri vöxtur verði í kringum miðju bilsins.

Jón Sigurðsson, forstjóri:

„Salan hélt áfram að færast í fyrra horf á okkar helstu mörkuðum, bæði í stoðtækja- og spelku- & stuðningsgeiranum. Söluvöxturinn á öðrum ársfjórðungi var hár vegna samanburðar við þann ársfjórðung sem varð fyrir mestu COVID-19 áhrifum í fyrra. Margir af okkar helstu mörkuðum hafa opnað aftur en sumir markaðir eru enn undir áhrifum af takmörkunum sem hafa verið settar til að hamla útbreiðslu á faraldrinum. Arðsemin jókst með aukningu í sölu og við munum áfram leggja áherslu á að stýra kostnaði samfara hærri sölu.

Við settum á markað nýtt Power Knee með góðum árangri en Össur leggur mikla áherslu á áframhaldandi forystu félagsins í tækniþróun. Ég er sannarlega þakklátur viðskiptavinum okkar og stoltur af starfsmönnum Össurar um allan heim fyrir að halda áfram að hafa áhrif til góða fyrir viðskiptavini og notendur okkar.“