Stoðtækjafyrirtækið Össur hagnaðist um 10 milljónir dala, jafnvirði 1.265 milljóna íslenskra króna, á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er tveimur milljónum dala meira en á sama tíma ári fyrr. Í uppgjöri fyrirtækisins kemur fram að vöxtur hafi verið á öllum landsvæðum þar sem vörur fyrirtækisins eru til sölu.

Sölutekjur námu 100 milljónum dala samanborið við 97 milljónir á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði, gjarnan nefnd EBTIDA, nam 18 milljónum dala, sem jafngildir 18% af sölu. Framlegð nam 62 milljónum dala eða 62% af sölu.

Eiginfjárhlutfall stoðtækjafyrirtækisins nemur 61%, að því er segir í uppgjörinu.

Haft er eftir Jóni Sigurðssyni forstjóra að uppgjörið sé í takt við áætlanir.

„Eins og á undanförnum ársfjórðungum þá uxu öll landsvæði og vörumarkaðir, þar sem Evrópa sýndi sérstaklega góðan árangur. Einn stærsti áfangi okkar á síðasta ári var kynningin á SYMBIONIC LEG, enn einni viðbótinni við Bionic vörulínuna okkar. Varan hefur fengið mjög góðar viðtökur á fyrsta ársfjórðungi og höfum við fengið góð viðbrögð frá notendum.“

Áætlun Össurar gerir ráð fyrir innri söluvexti á bilinu 4-6%, mælt í staðbundinni mynt, og að EBITDA, leiðrétt fyrir einskiptistekjum og einskiptikostnaði, verði á bilinu 20-21% af veltu fyrir árið í heild.