„Við erum taldir vera stór aðili á þessum markaði núna, en það hefur tekið tíma að vinna það inn.“ Þetta sagði Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, um stöðu og framtíðarhorfur á uppgjörsfundi félagsins.

Eins og hefur komið fram birti Össur uppgjör sitt fyrir annan fjórðung í morgun. Hagnaður félagsins á tímabilinu nam 3,9 milljónum Bandaríkjadala, sem samsvarar um 313 milljónum íslenskra króna m.v. gengi dagsins í dag. Meðalspá greiningardeilda var 5,8 milljón dollara hagnaður og er hagnaður því nokkuð undir spám.

Aftur á móti hefur hagnaður félagsins aukist gríðarlega, sé miðað við sama tímabil árið 2007, en hann hefur aukist um 160% séu fjórðungarnir bornir saman.

Samkvæmt stjórnendum félagsins eru markaðshorfur góðar fyrir komandi misseri. „Markaðurinn sem við störfum á er fremur stöðugur, og þau mál sem við glímum við nú aðallega innanhúsmál. Það eru góðar fréttir,“ sagði Jón Sigurðsson. Áhersla stjórnenda félagsins er nú sett á að auka arðsemi í rekstri eftir mikinn ytri vöxt að undanförnu. Til stendur að markaðssetja allt að 7 nýjar vörur það sem eftir er af árinu.

Á fundinum kom fram að sala í Asíu sé mjög góð, og að aukast töluvert. Aftur á móti sé salan í Bandaríkjunum vonbrigði. Von sé þó um að hún fari batnandi.

Forstjórinn sagði ennfremur að miklir samþættingar- og sparnaðarmöguleikar væru fyrir hendi í náinni framtíð.

„Össur er sterkt fyrirtæki og með heilbrigðan efnahagsreikning,“ sagði forstjórinn einnig á uppgjörsfundinum sem haldinn var á Grand Hótel og lauk nú fyrir skömmu.

Ítarlegri umfjöllun um uppgjörið verður í Viðskiptablaðinu á morgun.

Hér má finna uppgjörið og tilkynningu frá félaginu.