Össur hf. fagnar um þessar mundir 10 ára afmæli sínu sem skráð fyrirtæki í kauphöll NASDAQ OMX á Íslandi, en fyrirtækið var tekið til viðskipta þann 11. október 1999. Össur hf. á sögu frá árinu 1971, en óhætt er að segja að skráning fyrirtækisins á íslenska markaðinn fyrir tíu árum hafi verið mikilvægur áfangi í framþróun þess á alþjóðlega vísu.

„Við óskum Össuri og starfsfólki þess innilega til hamingju með 10 ára skráningarafmæli sitt á íslenska markaðnum. Við fögnum einnig velgengni fyrirtækisins í gegnum tíðina á innlendri sem erlendri grundu og óskum þeim alls velfarnaðar í komandi framtíð”, sagði Þórður Friðjónsson, forstjóri NASDAQ OMX kauphallarinnar á Íslandi í tilkynningu.

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar hf. segir í tilkynningu.: „Skráningin á Íslandi hefur reynst okkur vel og við munum leggja metnað okkar í að halda áfram að þjóna núverandi hluthöfum sem og nýjum. Frá því að félagið var skráð á hlutabréfamarkað hefur sala þess ríflega tuttugufaldast og Össur breyst í alþjóðlegt fyrirtæki.“

Össur hf. á sögu frá árinu 1971, en óhætt er að segja að skráning fyrirtækisins á íslenska markaðinn fyrir tíu árum hafi verið mikilvægur áfangi í framþróun þess á alþjóðlega vísu. Fyrirtækið hefur notið ríkrar ávöxtunar og athygli á markaðnum,  en fjöldi hluta í Össuri hefur um það bil tvöfaldast frá skráningu. Meðal verkefna sem Össur hefur ráðist í eftir árangursrík hlutafjárútboð má t.d. nefna kaup á bandaríska félaginu Royce Medical Holding Inc.