Össur hf. hlaut Frost & Sullivan tækniverðlaun ársins 2005, sem afhent voru í London í gærkvöldi. Verðlaunin eru veitt því fyrirtæki sem hefur þróað og kynnt framúrskarandi og brautryðjandi tækninýjung á markaði fyrir lækningatæki. Fékk Össur jafnframt hrós fyrir frumkvöðulsstarf sitt með Rheo Knee hátæknihnéð.

Össur leggur mikla áherslu á rannsóknar- og þróunarstarf og hefur fyrirtækið varið að meðaltali 8% af árstekjum sínum til rannsókna og þróunar. Með Rheo Knee hefur Össur markaðsett fyrsta gervihnéð með gervigreind sem er fært um að læra og aðlagast hreyfingum og gönguhraða notandans segir í tilkyningu félagsins.

Hnéð notar nýja rafafls- og vökvaflæðitækni til að laga hreyfingu að gönguhraða notanda, sem er ný hönnun frá grunni. Í vökvanum eru málmagnir, sem bregðast við þegar rafstraum er hleypt á hann. Málmagnirnar raðast með ákveðnum hætti upp og læsa eða losa hnéð mun hraðar en gerist þegar eingöngu er um vökvastreymi að ræða. Þúsund sinnum á sekúndu stillir hnéð hallann og þungann sem hvílir á gervihnjáliðnum og verður þannig viðbragðið mun sneggra í hinu nýja Rheo Knee. Össur hefur fengið einkaleyfi á vökvaflæðitækninni.

?Rheo Knee er afrakstur þrotlausrar rannsóknar- og þróunarvinnu og það fyrsta af nýrri kynslóð hnjákerfa með örgjörvastýrðri sveiflu og stöðu. Það hefur gervigreind sem gerir því kleift að læra hvernig notandinn gengur og tileinkar sér að lokum hvert hans skref," útskýrir Claire Staniforth, rannsóknarsérfræðingur hjá Frost & Sullivan. ?Þessi tímamóta tækninýjung mun ryðja braut fyrir næstu kynslóð stoðtækja sem miðar að því að líkja nákvæmlega eftir hreyfingum mannslíkamans."