Össur hf. hagnaðist um 13 milljónir Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri félagsins. Um er að ræða hagnað sem nemur 1,6 milljörðum íslenskra króna, sem er um 10% af sölu.

Sala nam 129 milljónum Bandaríkjadala og nam söluvöxtur frá fyrra ári 11%, þar af 5% innri vöxtur. EBITDA nam 24 milljónum dala eða 19% af sölu.

Í byrjun september festi Össur kaup á Medi Prosthetics og hafði það eingöngu áhrif á rekstrarreikning samstæðunnar í þeim mánuði. Fyrirtækið hefur þá einnig uppfært rekstraráætlun fyrir 2016 en fyrirtækið er almennt bjartsýnt.

Samkvæmt spánni á söluvöxtur að vera á bilinu 8 til 10%, en hann var áður 7 til 9%. Innri söluvöxtur helst þó óbreyttur og mun nema 3 til 5% í staðbundinni mynt.

EBITDA framlegð hefur þó verið aðlöguð fyrir einskiptikostnaði og verður hún um 19% af sölu. Kennitalan var áður á bilinu 20 til 21%.

Fjárfestingarstefna félagsins mun einnig haldast óbreytt, en fyrirtækið ver um 5% af sölu í fjárfestingar.

Í tilkynningunni segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össur hf., sölu á stoðtækjum hafa verið einstaklega góða.

Söluvöxtur á þriðja ársfjórðungi var góður. Sala á stoðtækjum var einstaklega góð og var drifin áfram af bionic vörum og vörunýjungum. Í september festum við kaup á Medi Prosthetics, sem framleiðir og selur mekanísk stoðtæki á heimsvísu. Með þessum kaupum bjóðum við enn betra vöruúrval og styrkjum stöðu okkar frekar á stoðtækjamarkaðinum. Rekstraráætlun ársins hefur verið uppfærð vegna tímabundinna áhrifa frá nýlegum fyrirtækjakaupum sem og neikvæðum áhrifum vegna styrkingu íslensku krónunnar á framlegð fyrirtækisins.”