Hagnaður Össurar hf. á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var 6,7 milljónir Bandaríkjadala eða um 490 milljónir íslenskra króna, samanborið við 2,7 milljóna tap (um 198 millj. Ísl.króna) á sama tímabili árið 2007.

Það gerir hagnað upp á 2,98 cent á hvern hlut sem er aukning upp á um 230% að sögn félagsins en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu vegna uppgjörs fyrsta ársfjórðungs.

Þar segir að söluaukning innri vaxtar hjá félaginu var 12% og var sala í Bandaríkjunum til að mynda um 89,8 milljónir Bandaríkjadala.

EBITDA hagnaður félagsins var 23 milljónir dala og jókst um 124% á milli ára.

Meiri vöxtur í Evópu og Asíu

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar segist vera ánægður með niðurstöður fyrsta ársfjórðungs. Hann segir Evrópu og Asíu sýna mjög góðan vöxt bæði í stoðtækjum og spelkum og eins stuðningsvörum.

„Salan á stoðtækjum heldur áfram að vaxa umfram vöxt markaðarins, sem staðfestir sterka stöðu Össurar á þessum markaði. Salan á spelkum og stuðningsvörum í Bandaríkjunum er minni en vonir stóðu til en stjórnendur hafa trú á því að viðsnúningur sé í sjónmáli,“ segir Jón.

Hann segir helstu áherslur ársins 2008 vera að auka arðsemi, áframhaldandi nýting á dreifileiðum fyrirtækisins fyrir nýjar vörur, sem og að hagræða í vörulínu fyrirtækisins í spelkum og stuðningsvörum.

„Nú þegar hafa verið sett af stað mikilvæg verkefni þessu til stuðnings,“ segir Jón.