Össur hf. hlaut á dögunum Charles D. Siegal verðlaunin frá Ráðgjafamiðstöð um réttindi fatlaðra  (The Disability Rights Legal Center) í Bandaríkjunum.

Verðlaunin eru nefnd eftir fyrrverandi forseta samtakanna og hlýtur Össur þau fyrir framúrskarandi framlag til fatlaðra með framleiðslu stoðtækja.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Össur.

Tim McCarthy, sölustjóri Össurar i Norður- og Suður-Ameríku, veitti verðlaununum viðtöku í árlegum viðhafnarkvöldverði samtakana í Los Angeles.

Í niðurstöðu dómnefndar kom fram að Össur hf. hlýtur verðlaunin fyrir þróun og framleiðslu á stoðtækjum sem hafa gjörbylt aðstöðu fatlaðra og gert þeim kleift að taka þátt í daglegu lífi.

„Með því að veita Össuri hf. Charles D. Siegal verðlaunin erum við að þakka fyrirtækinu fyrir framlag þess til samfélags fatlaðra og þau auknu lífsgæði sem stoðtæki fyrirtækisins hafa fært fötluðum”, segir Paula Pearlman, yfirmaður stofnunarinnar í tilkynningunni.

„Stoðtæki Össurar hafa gert mörgum fötluðum mögulegt að lifa eðlilegu lífi auk þess sem framtíðarsýn Össurar, líf án takmarkana, endurspeglar sýn okkar um að auka möguleika fatlaðra í lífinu.”

„Þessi verðlaun eru okkur hvatning um að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á og í þeim felst ákveðin viðurkenning á störfum Össurar. Þá er mikill heiður fyrir Össur að fá verðlaun frá þessum samtökum sem eru mjög virt á sínu sviði,”  segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar í tilkynningunni.

Ráðgjafamistöð um réttindi fatlaða var stofnuð árið 1975 í Los Angeles í Kaliforníu og sinnir hagsmunagæslu fyrir fatlaða auk þess að veita þeim lagalega ráðgjöf. Stofnunin er sú elsta sinnar tegundar í Bandaríkjunum og hefur átt mikinn þátt í aukinni þátttöku fatlaðra í samfélaginu.