*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 18. janúar 2006 16:45

Össur hf. kaupir Innovation Sports, Inc.

Ritstjórn

Össur hf. hefur keypt bandaríska stuðningstækjafyrirtækið Innovation Sports, Inc. fyrir 38,4 milljónir Bandaríkjadala. Innovation Sports er forystufyrirtæki á sviði þróunar og framleiðslu á liðbandaspelkum. Össur tekur við rekstri Innovation Sports frá og með deginum í dag segir í fréttatilkynningu félagsins.

Kaupin á Innovation Sports koma í kjölfar kaupa Össurar á Royce Medical í Bandaríkjunum og IMP Holdings á Bretlandi. Með þessum fyrirtækjakaupum, kaupum félagsins á Generation II árið 2003 sem og forystu Össurar á sviði stoðtækja, er Össur meðal stærstu og framsæknustu fyrirtækja á sínu sviði í heiminum.

?Með kaupunum á Innovation Sports erum við komin með leiðandi stöðu á markaði fyrir liðbandaspelkur, sem er stærsti hluti markaðarins fyrir spelkur og stuðningsvörur. Þetta ýtir jafnframt undir frumkvæði okkar hjá Össuri og getu til að sækja fram af meiri krafti á sviði stuðningstækja. Við væntum þess að kaupin skili enn frekari skilvirkni í rekstri og öðrum samlegðaráhrifum," segir Jón Sigurðsson forstjóri Össurar hf.

Innovation Sports var stofnað 1983. Fyrirtækið er í Foothill Ranch í Kaliforníu og hefur á að skipa 150 starfsmönnum. Megin markaðir eru Bandaríkin, Kanada og Mið-Evrópa, en 50% af sölu fyrirtækisins er í Bandaríkjunum, 40% í Evrópu og 10% í Kanada. Innovation Sports hefur sérhæft sig í hönnun og framleiðslu á hnjáspelkum til nota vegna liðbandaáverka og endurhæfingar, auk þess að hanna og framleiða stuðningsspelkur fyrir íþróttamenn ásamt öðrum tegundum af spelkum. Þannig munu vörur Innovation Sports bæta enn frekar núverandi vörulínur Össurar.

?Þekking okkar og sterk hlutdeild á markaði fyrir liðbandaspelkur ásamt því orði sem fer af þjónustu okkar ættu að auka tækifæri Össurar til frekari vaxtar á þessu sviði," segir John Turnbull, forstjóri Innovation Sports.

Áætlaðar tekjur Innovation Sports fyrir árið 2005 eru 19 milljónir Bandaríkjadala og leiðrétt EBITDA 19%. Áætlað er að verja um 3 milljónum dala til endurskipulagningar og uppbyggingar á næsta ári, og verður allur þessi kostnaður gjaldfærður á fyrsta fjórðungi. Gert er ráð fyrir að þetta muni skila sér í rúmlega 4 milljóna dala rekstrarhagræði frá og með árinu 2007.