Össur var valið markaðsfyrirtæki ársins 2008 og markaðsmaður ársins var Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Borgarleikhússins en Markaðsverðlaun ÍMARK voru afhent í 18. sinn hádeginu í dag.

Athöfnin fór fram í Turninum við Smáratorg í Kópavogi.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson afhenti verðlaunin en þau eru veitt fyrirtækjum sem hafa verið áberandi í markaðsmálum á líðandi ári.

Tvö önnur fyrirtæki, auk Össurar, voru tilnefnd í ár sem markaðsfyrirtækið ársins, Síminn og Vodafone.

Fulltrúaráð ÍMARK kynnti við athöfnina hugmyndavinnu sína sem fjallaði um aðkomu markaðsfólks að lausn þeirra efnahagsþrenginga sem Ísland gengur nú í gegnum.

Það var Leópold Sveinsson, eigandi auglýsingastofunnar ARGUS, sem kynnti hugmyndirnar fyrir hönd ráðsins.

Landsbankinn var valinn markaðsfyrirtæki ársins 2007 og Andri Már Ingólfsson, eigandi Heimsferða, var valinn markaðsmaður ársins sama ár.