Bandaríkjamenn hafa mikinn áhuga á auknu samstarfi við Íslendinga í málefnum Norðurslóða og á næstu misserum munu fara fram viðræður milli landanna um nánari þróun á slíku samstarfi.

Þetta kom fram í máli Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, sem fyrr í dag átti fund með Frú Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Fundur þeirra stóð í rúman hálftíma.

Eftir fundinn ræddi Össur við íslenska blaðamenn í Washington. Össur sagði að hann hefði óskað eftir því að Bandaríkjamenn myndu aðstoða Íslendinga við að þróa varnir gegn mögulegum olíu- og öðrum umhverfisslysum á norðurslóðum. Auk þess myndu ríkin tvö þróa með sér frekari samstarf um leit og björgun á hafinu í kringum Ísland.

Aðspurður hvort að Össur sæi fyrir sér aukna viðveru eða starfsemi Bandaríkjamanna á Íslandi sagði ráðherrann að ekkert benti til þess að svo yrði. Hins vegar hefði hann, líkt og áður, fjallað um brotthvarf hersins af Íslandi árið 2006. Össur sagði að hið aukna samstarf myndi m.a. felast í heræfingum á borð við þá sem skipulögð hefur verið á næstu vikum (Norður Víkingur) ásamt öðrum þjóðum.

Össur og Frú Clinton ræddu einnig um efnahagsástandið á Íslandi og að sögn Össurar hafði bandaríski utanríkisráðherrann mikinn áhuga á að fá nánari greiningu á ólíkum aðferðum Íslendinga og Íra við hrun helstu fjármálastofnana landsins. Fram kom í máli Össurar að Frú Clinton hugnaðist frekar aðferð Íslendinga í þessu máli.

Þá ræddu ráðherrarnir ástandið í Lýbýu, friðarviðræður fyrir botni Miðjarahafs en á morgun mun Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, flyta stefnuræðu sína um málefni Mið-austurlanda og mögulegan frið fyrri botni Miðjarahafs.

Aðspurður hvort að aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið hefði verið rædd á fundinum sagði Össur að það hefði borið upp. Hann sagði, líkt og áður hefur komið fram, að Bandaríkjamenn styddu aðild Íslands að sambandinu svo lengi sem íslenska þjóðin myndi samþykkja aðildina.