*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 23. júní 2017 08:16

Össur í byggingabransann

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra og Alþingismaður til margra ára, hefur breytt um starfsvettvang.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður til margra ára, hefur stofnað byggingafyrirtækið DEHÚS byggingafélag ehf. ásamt tveimur öðrum einstaklingum samkvæmt skráningu í Lögbirtingablaðinu. Össur er skráður sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins með honum að félaginu standa Þórarinn Magnússon, fyrrverandi formaður Verkfræðingafélags Íslands og Einar Karl Haraldsson. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu.

Í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar kemur fram að byggingafélag Össurar hafi sótt um sex lóðir í bæjarfélaginu. Þá hafi hann enn fremur óskað eftir skipulagsbreytingum fyrir lóðirnar.

Össur Skarphéðinsson var þingmaður á árunum 1991 til 2016, fyrst fyrir Alþýðuflokkinn en seinna meir tók hann þátt í stofnun Samfylkingarinnar 1999. Hann var umhverfisráðherra á árunum 1993-1995, iðnaðarráðherra 2007-2009 og utanríkisráðherra 2009-2013. Áður hafði hann m.a. verið ritstjóri Þjóðviljans, Alþýðublaðsins og DV. Össur er þó ekki ókunnugur atvinnulífi og einkageira, því hann var aðstoðarforstjóri Reykvískrar endurtryggingar árin 1989-91.