Reikna má með því að á fyrsta ársfjóðrungi 2011 ljúki stoðtækjaframleiðandinn Össur við fjármögnun á markaðskjörum. Félagið ræðir við skandinavíska banka í þeirri viðleitni að alþjóðavæða fjármögnun félagsins. Félagið er fjármagnað til ársins 2015.

Þetta kemur fram í greiningu IFS greiningar á Össuri. Segir að uppgjör félagsins sé nokkuð í takt við spá IFS.

Greining IFS:

„Össur skilaði ágætu uppgjöri sem var nokkuð í takt við okkar spá. Salan var sú besta í sögu félagsins og nam 94,6 m.USD sem var 7,6% aukning á milli tímabila eða 10% mælt í staðbundinni mynt. Við höfðum reiknað með að hún yrði 91,6 m.USD, það er 4,3% vexti á milli ára. Sölu- og stjórnendakostnaður reyndist hins vegar 14% hærri en við reiknuðum með. Fyrirtækið hefur verið að fjárfesta í dreifingarneti í BNA sem mun skila sér í aukinni sölu. Jafnframt skýrist aukinn heildarrekstrarkostnaður m.a. af auknum rekstrarkostnaði í yfirteknum fyrirtækjum og yfirtökukostnaði. EBITDA-hlutfall var18,9% (spá 20,9%).

Góður vöxtur var í stoðtækjasölu á 4F eða 6% innri vöxtur. Mikil aukning varð í Asíu en vöxtur í EMEA var í takt við vöxt markaðarins. Sala á Proprio gerviökklanum, sem var settur á markað á 3F, á 4F 2010 var í takt við væntingar. Bionic-línan skilar nú um 15% af heildarsölu stoðtækja. Sala á spelkum og stuðningsvörum var mjög góð á fjórðungnum og jókst um 16% mælt í staðbundinni mynt (3% innri vöxtur). Síðustu ársfjórðungar hafa verið mjög góðir í Bandaríkjunum og var sá fjórði þar enginn undantekning. Öflugra sölunet og nýjungar í vöruúrvali hafa skilað sér vel. Hins vegar skiluðu nýjar vörur sér ekki eins og skyldi í EMEA. Söluvöxtur í BNA var 19% mælt í staðbundinni mynt og 16% í Asíu. Hins vegar var vöxturinn hægur í EMEA eða 1%.

Í afkomuáætlun fyrir árið 2011 er gert ráð fyrir 4-6% innri söluvexti mælt í staðbundinni mynt sem er sú sama og sett var fram eftir uppgjör 3F2010. EBITDAframlegð leiðrétt fyrir einskiptistekjum og –kostnaði verður á bilinu 20-21%. Áætlanir stjórnenda hafa verið hóflegar og félagið náð settum markmiðum. Forstjóri félagsins reiknar með jöfnum innri vexti í stoðtækjum annars vegar og spelkum og stuðningstækjum hins vegar.

Efnahagurinn heldur áfram að styrkjast. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru um áramótin 1,8xEBITDA ársins. Félagið er fjármagnað til ársins 2015. Reikna má með því að á 1F2011 ljúki það fjármögnun á markaðskjörum við skandinavíska banka í þeirri viðleitni að alþjóðavæða fjármögnun félagsins.

Lífeyrissjóðir slá í borðið

Fram kom á símafundi í morgun að ákvörðun stjórnar um afskráningu Össurar úr Kauphöllinni yrði rædd á aðalfundi í mars. Þá kom einnig fram að íslenskir lífeyrissjóðir, sem eiga um 15% hlutfjár, væru mótfallnir áformum stjórnarinnar og hefðu ritað henni bréf um að hún endurskoðaði ákvörðun sína.“