Össur hf. greindi í dag frá samningaviðræðum um hugsanlega yfirtöku á evrópsku stuðningstækjafyrirtæki. Hefur félagið þegar undirritað óbindandi viljayfirlýsingu um kaupin en fram kemur í tilkynningunni að líklegt heildarkaupverð (e. enterprise value) nemi um 20 milljónum dollara eða sem nemur um 1.230 milljónum króna.

Ekki kemur fram í tilkynningunni hvaða félag sé um að ræða. Stærð félagsins og staðsetning gefur þó til kynna að um sé að ræða óskráð félag í einkaeigu eða að því leiðir greiningardeild KB banka í Hálffimm fréttum sínum. Er áætlað að velta félagsins nemi um 15 milljónum dollara á árinu 2005 eða sem nemur um 930 milljónum króna. Hagnaður fyrir vexti, skatta, afskriftir og fjármagnsliði (e. EBITDA) er hins vegar áætlaður um 3 milljónir dollara (um 190 m.kr.) eða 20% af veltu. Til samanburðar nam velta sameinaðs félags Össurar og Royce Medical (e. pro forma), sem Össur keypti nú fyrir skemmstu, rúmlega 196 milljónum dollara frá miðju síðasta ári fram á mitt ár 2005 og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir tæplega 44 milljónum dollara. Gangi kaupin eftir, á félaginu sem nú er til skoðunar, mun velta og EBITDA samstæðu Össurar því aukast um 7% til 8%. Fram kemur í tilkynningu Össurar að kaupin séu meðal annars háð niðurstöðum áreiðanleikakönnunar.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.