Alþingi kom saman í gærkvöldi til þess að taka fyrir frumvarp um þrengingu gjaldeyrishafta í aðdragana afnáms þeirra. Frumvarpið var samþykkt á innan við klukkutíma með 56 atkvæðum, en einn þingmaður sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir í stöðuuppfærslu á Facebook að upplýst hafi verið á Alþingi í gærkvöldi að Seðlabankastjóri hefði vísað til markaðsóróa í kjölfar leka í DV síðasta föstudag, sem innihélt upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda við haftaafnám, og því væri brýnt að Alþingi samþykkti breytingar á gjaldeyrislögum áður en fjármálamarkaðir opnuðu í dag.

Sem kunnugt er greindi DV frá því á föstudag að slitabú föllnu bankanna myndu þurfa að greiða skatt sem næmi 40% af eignum þeirra tækist þeim ekki að ljúka uppgjöri sínu með nauðasamningum sem ekki ógna greiðslujöfnuði þjóðarbúsins til lengri tíma litið og áætlun um losun hafta. Slitabúin hefðu fáeinar vikur til stefnu til að ljúka slíkum nauðasamningum vildu þau komast hjá því að greiða stöðugleikaskattinn áður en hann tæki gildi.

Segir Össur að innsti hringur mígleki þar sem viðskiptaritstjóri DV hafi allajafna meiri upplýsingar en almennir ráðherra um stöðuna, og miklu meiri en nokkur þingmaður.

„Gera menn sér grein fyrir hvað þetta þýðir? – Í miðju framkvæmdavaldsins er trúnaður brotinn. Upplýsingum, sem geta skaðað stöðu Íslands gagnvart kröfuhöfum er lekið. Trúnaðarbrotið er það alvarlegt að það þarf skyndifund Alþingis til að koma í veg fyrir skaða,“ skrifar Össur.