Össur hf. hefur undirritað samning um kaup á öllu hlutafé bandaríska fyrirtækisins Royce Medical Holding, Inc., að aflokinni áreiðanleikakönnun á félögunum, en Royce hefur um árabil verið einn af fremstu framleiðendum stuðningstækja í Bandaríkjunum. Heildarkaupverð (e. Enterprise Value) er 216 milljónir Bandaríkjadala sem nemur um 14 milljörðum króna. Gert er ráð fyrir að gengið verði endanlega frá kaupunum í ágúst, en fyrivari er um samþykki frá bandarískum samkeppnisyfirvöldum.

Kaupin á Royce Medical eru langstærsta yfirtaka Össurar til þessa og falla vel að þeirri stefnu félagsins að víkka út starfsemina og auka vægi stuðningstækja í rekstrinum.

Að sögn Jóns Sigurðssonar, forstjóra Össurar, eru kaupin mikilvægur áfangi í enn frekari sókn inn á stuðningstækjamarkaðinn. " Í sameiningu verða Össur og Royce öflugri og verða í forystu á sviði stuðningstækja á Bandaríkjamarkaði. Össur hefur um árabil verið forystufyrirtæki í hönnun og framleiðslu á stoðtækjum og ætlar sér nú að ná sama árangri á markaðnum fyrir stuðningstæki."

?Samruni fyrirtækjanna tveggja eykur gildi félagsins fyrir starfsmenn okkar, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila. Sameiningin mun skapa sterkan grundvöll fyrir frekari þróun stuðningstækja á Bandaríkjamarkaði og með þekkingu og reynslu starfsmanna okkar mun Össur í framtíðinni geta fært út kvíarnar á markaði sem er í eðli sínu tvístraður. Við hlökkum til að taka þátt í öllum þeim krefjandi verkefnum sem eru framundan," segir Rodney Boon, forstjóri Royce Medical.

Royce Medical er öflugt félag sem sýnt hefur öran vöxt og góða afkomu á undanförnum árum. Fyrirtækið er meðal fremstu framleiðenda stuðningstækja í Bandaríkjunum og er þekkt fyrir vandaðar vörur.

Helstu vöruflokkar félagsins eru:

· Spelkumót til nota vegna tognunar, brota og eftir aðgerðir

· Ýmsar tegundir af spelkum m.a. gifsspelkur og mjúkspelkur

· Fótabúnaður til meðferðar á langvarandi fótasárum

· Hálskragar

Rekstur Royce Medical hefur gengið vel undanfarin ár. Samkvæmt óendurskoðuðu uppgjöri fyrir tólf mánaða tímabil sem lauk 30. júní 2005, nam sala félagsins um 68 milljónum Bandaríkjadala. Hagnaður félagsins fyrir vexti, skatta og afskriftir (EBITDA) námu samtals 18 milljónum Bandaríkjadala, sem felur í sér 26% EBITDA framlegð. Hagnaður fyrir vexti og skatta (EBIT) námu samtals um 17 milljónum dala, sem felur í sér 25% framlegð. Royce Medical hefur skattaívilnun sem áætlað er að spari sameinuðu félagi um 35 milljónir dala í sköttum á næstu 13 árum. Royce Medical er skuldlaust félag við kaupin.

Sala Össurar og Royce Medical á tímabilinu 1. júlí 2004 til 30. júní 2005 nam samtals um 196 milljónum Bandaríkjadala og EBITDA 43 milljónum Bandaríkjadala. Áætlaður kostnaður vegna samþættingar og endurskipulagningar er um 5 milljónir Bandaríkjadala sem áætlað er að leiða muni til árlegs framtíðarsparnaðar á rekstrarútgjöldum upp á 3 til 3,5 milljónir dala frá árinu 2007. Kostnaðurinn verður allur gjaldfærður á þriðja ársfjórðungi 2005.

Ávinningur með kaupunum á Royce Medical

· Færir fyrirtækið nær því markmiði sínu að vera meðal stærstu fyrirtækja á stuðningstækjamarkaðnum

· Eflir sóknarfæri og sýnileika Össurar á bandaríska stuðningstækjamarkaðnum

· Eykur sölumöguleika á vörum Össurar í gegnum sölukerfi Royce Medical í Norður-Ameríku

· Opnar nýjar dyr gegnum sölukerfi Össurar fyrir markaðssetningu á vörum Royce Medical í Evrópu

· Rekstur og vörur fyrirtækjanna tveggja falla mjög vel saman

· Þekking og reynsla starfsfólks Royce Medical á Bandaríkjamarkaði er mjög veigamikil

· Skapar nýjan grundvöll til nýta þekkingu Össurar á lífverkfræði (e.bionics) á sviði stuðningstækja

Royce Medical
Royce Medical var stofnað árið 1968 og eru starfsmenn 321 talsins. Fyrirtækið hefur starfsstöðvar í Kaliforníu og New Jersey. Í upphafi sérhæfði félagið sig í framleiðslu og sölu á spelkum til notkunar eftir skurðaðgerðir, en frá árinu 1981 hefur félagið fært út kvíarnar og lagt áherslu á að bjóða breiðara vöruúrval. Royce Medical hefur lagt mikla áherslu á rannsóknar- og þróunarstarf, en félagið á 57 bandarísk einkaleyfi og er með umsóknir um 14 slík leyfi til viðbótar. Flestar vörur Royce Medical eru framleiddar í Asíu. Vefsíða: www.roycemedical.com

Endurfjármögnun og forgangsréttarútboð

Seljandi Royce Medical er bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Cortec Group Fund III LP, einn af virtari fjárfestingasjóðum í Bandaríkjunum, sem átt hefur félagið frá árinu 2003.

Að sögn Jeff Lipsitz, framkvæmdastjóra Cortec Group, hefur það verið ánægjuefni að vera eigandi Royce Medical og vinna náið með stjórnendum félagsins að því að auka virði þess síðastliðin tvö ár. ?Með kaupunum er Össur að eignast mjög sérstakt fyrirtæki og framtíðarhorfurnar í kjölfar sameiningarinnar eru virkilega spennandi."

Banc of America og fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings banka veittu Össuri hf. ráðgjöf

við kaupin og mun Kaupþing banki jafnframt hafa umsjón með fjármögnun kaupanna. Samhliða er gert ráð fyrir endurfjármögnun samstæðu Össurar með sambankaláni og útgáfu nýs hlutafjár sem boðið verður hluthöfum til sölu með forgangsrétti. Gert er ráð fyrir að hlutafjárútboðið fari fram í haust. Heildarfjármögnun er um 313 milljónir Bandaríkjadala og mun um 260 milljónum dala af þeirri upphæð verða varið til að fjármagna kaupin, endurfjármagna núverandi útistandandi skuldir Össurar og mæta kostnaði við kaupin. Lána- og ábyrgðarlína nemur 33 milljónum Bandaríkjadala.