Össur hefur keypt allt hlutafé í sænska stoðtækjafyrirtækinu TeamOlmed fyrir 310 milljónir sænskra króna, andvirði um 5,8 milljarða íslenskra króna. Í tilkynningu segir að fyrirtækin hafi lengi unnið saman og með kaupunum á TeamOlmed aukist hlutur Össurs á sænska stoðtækjamarkaðnum til muna.

Eins og áður segir nemur kaupverðið 310 milljónum sænskra króna og er það að fullu greitt í reiðufé. Við það geta bæst 50 milljónir sænskra króna að náðum ákveðnum tekju- og hagnaðarmarkmiðum hjá TeamOlmed.

TeamOlmed varð til árið 2011 sem samruna tveggja sænskra fyrirtækja. Í fyrra nam velta fyrirtækisins 348 milljónum sænskra króna og hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, EBITDA, nam 43 milljónum sænskra króna. Heildareignir fyrirtækisins voru um síðustu áramót 419 milljónir sænskra króna.