Aðalfundur Össurar hf. verður haldinn á morgun en þetta er fyrsti aðalfundur félagsins eftir að það komst í meirihlutaeigu erlendra fjárfesta. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eiga erlendir fjárfestar nú á milli 55 og 57% hlut í félaginu og fóru yfir 50% eignarhlut fyrir nokkrum vikum. Lífleg viðskipti hafa verið með bréf félagsins í dönsku kauphöllinni undanfarið en félagið er með tvöfalda skráningu.

Ef horft er á gengi bréfa Össurar, sem hafa verið að hækka að undanförnu, þá sést að síðasta verð í Danmörku er 7.5 og kaupboð 7.4 og söluboð 7.60 og virðist sem svo að eftirspurn sé talsverð. Þannig virðist vera nokkur verðmunur á bréfum félagsins eftir því hvort keypt er í Danmörku eða á Íslandi. Þetta verð felur í sér að  7.50 jafngildir genginu 176-177 en síðasta verð hér á Íslandi var 170.

Þannig virðist vera nokkur áhugi meðal erlendra fjárfesta eftir bréfum félagsins, jafnvel meiri en hér heima. Eftir því sem komist verður næst eiga íslensku lífeyrissjóðirnir á milli 10 og 12% í félaginu.

Ekki er gert ráð fyrir að breyting verði á stjórn félagsins á morgun.