Gengi hlutabréfa Össurar hafa hækkað um 5,3% í kauphöllinni í Kaupmannahöfn það sem af er degi en félagið birti í morgun uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung. Jókst hagnaður fyrirtækisins um 23%  frá ama tímabili í fyrra.

Gengi bréfa Össurar hefur verið á töluverðu skriði á þessu ári eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum. Hefur hlutabréfaverð félagsins nú hækkað um 46,9% það sem af er ári og nemur markaðsvirði félagsins 19,4 milljörðum danskra króna eða því sem nemur um 353 milljörðum króna. Hefur markaðsvirði félagsins aukist um 6,2 milljarða danskra króna það sem af er ári eða um 113 milljarða króna.

Fyrirtækið skilaði sterku uppgjöri á fyrsta ársfjórðungi sem samkvæmt dönskum greiningaraðilum jók væntingar um að spá um innri vöxt fyrir árið í ár yrði hækkuð. Segja má að þær væntingar hafi raungerst þar sem Össur hækkaði spá sína um innri vöxt á árinu úr 4-5% í 5-6%.